Hjördís Ýrr Skúladóttir, nýr formaður MS-félagsins
Hjördís Ýrr Skúladóttir, nýr formaður MS-félagsins

Nú er nýafstaðinn rafrænn aðalfundur félagsins. Mættir á fundinn voru um 20 félagsmenn en fundarstjórn var í höndum Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, fyrrum varaformanns félagsins.

 

Björg Ásta Þórðardóttir, fráfarandi formaður las skýrslu stjórnar fyrir starfsárið og hér skal stiklað á stóru. Starfsárið var litað af ástandinu í þjóðfélaginu vegna COVID-19. Þrátt fyrir það var skrifstofa félagsins opin að langmestu leyti og þjónusta félagsráðgjafa og sálfræðings einnig í boði. Mjög aukin ásókn er í félagsráðgjöfina og fjölgaði viðtölum úr 55 árið 2019 í 104 árið 2020. Þá var sálfræðiráðgjöfin einnig vel nýtt og fjölgaði viðtölum úr 40 árið 2019 í 60 árið 2020.

Nokkur námskeið voru haldin, eins og námskeið fyrir nýgreinda, minnisnámskeið bæði á Akureyri og í Reykjavík og einnig var boðið upp á léttar æfingar á fésbókinni í hópnum MS þrek. Þá var virk fræðsla í gangi yfir netið og fjölmargir fyrirlestrar haldnir ásamt kynningum á þjónustu.

Að venju komu út tvö tölublöð MS-blaðsins. Rafrænn bæklingur um þreytu var þýddur úr ensku og eins hreyfimynd um kynlíf og MS sem var þýdd og talsett á íslensku. Þá var umfangsmikil umfjöllun á heimasíðu og samfélagsmiðlum um COVID-19 og MS. 

Á vegum félagsins vinnur vinnuhópur að gerð tillagna um stefnu í málefnum MS-fólks. Þetta er umfangsmikið verkefni sem vonir standa til að skili af sér síðar á árinu. Þá hefur félagið talað fyrir húsnæðisúrræðum fyrir langveika einstaklinga með miklar stuðningsþarfir og haft samráð bæði við Parkinsonsamtökin og ÖBÍ.

Ánægjulegt er að sjá hve margir fulltrúar MS-félagsins eru virkir í starfi ÖBÍ, en félagið á fjölmarga fulltrúa í því starfi: fulltrúa í stjórn; fulltrúa í stjórn Brynju – Hússjóðs ÖBÍ; málefnahópum; kjörnefnd; undirbúningsnefnd Hvatningarverðlauna og stefnuþingi; ásamt samráðshópum og notendaráðum í nokkrum sveitarfélögum.


Forsíða dagatals 2021Fjáröflun félagsins gekk vonum framar á árinu og er félagið vel í stakk búið til að takast á við óvissu komandi mánaða. 
Í ljósi góðs gengis var ákveðið að veita styrk til félagsmanna í neyð fyrir jólin 2020 og einnig styrkti styrktarsjóður ungra námsmanna 5 einstaklinga á liðnu starfsári.

Þá var farið yfir ársreikninga félagsins. Eins og fyrr sagði var árangur í fjáröflun ársins einstaklega góður, að hluta til þar sem kvöldsöfnun ársins á undan teygði sig inn í fyrri hluta ársins en árangur kvöldsöfnunar að hausti var einnig framar væntingum.

Skýrsla stjórnar ásamt ársreikningi var samþykkt einróma og þá tók við stjórnarkjör.

Í embætti formanns gaf Hjördís Ýrr Skúladóttir kost á sér. Alvar Óskarsson gaf kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, Haukur Dór gaf kost á sér til stjórnarsetu og Eva Þorfinnsdóttir gaf kost á sér til áframhaldandi setu sem varamaður. Fleiri framboð bárust ekki og voru þau því sjálfkjörin.

 

Stjórn félagsins skipa því nú:

Formaður:          Hjördís Ýrr Skúladóttir

Stjórn:                 Alvar Óskarsson, Berglind Björgúlfsdóttir, Haukur Dór, Ingveldur Jónsdóttir

Varamenn:         Eva Þorfinnsdóttir, Lára Björk Bender

 

Hjördís Ýrr er 47 ára kennari, gift 3ja barna móðir og lesendum MS-blaðsins vel kunn af frásögn hennar um einstakt ferðalag og dvöl erlendis sem átti rætur að rekja til MS-greiningar árið 2015. Hjördís Ýrr mun leggja áherslu á að standa vörð um þjónustu félagsins, hlúa að fólki og nýta kosti tækninnar þar sem hún á við. Hún fer full tilhlökkunar inn í starfið og er bjartsýn á bjartari tíma þar sem hægt verður að efna til viðburða á ný.

 Ólína og Björg Ásta á góðri stundu ásamt Páli Kristni ritstjóra

 

Björg Ásta Þórðardóttir hætti sem formaður eftir 4 ár og 4 ár sem varamaður í stjórn þar á undan. Þá lauk Ólína Ólafsdóttir sinni átta ára stjórnarsetu. Ólína hefur setið í stjórn bæði sem ritari og varaformaður félagsins.  Þeim var báðum þakkað frábært og óeigingjarnt starf í þágu félagsins undanfarin átta ár og óskað alls hins besta.

 

 

Lára Björk Bender formaður ungmennaráðs félagsins – félagshópsins Skells sagði stuttlega frá starfseminni. Haldnir voru rafrænir fundir og viðburður fyrir jólin ásamt því sem stofnað var WhatsApp spjall. Vonir standa til að hægt verði að standa fyrir viðburðum í raunheimi síðar á árinu og efla starf ráðsins.

 

Niðurstöður kosninga í ráð og nefndir verða færðar inn á heimasíðuna von bráðar og fundargerð aðalfundar einnig birt svo fljótt sem kostur er.