Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
„Það geta ekki allir allt en það geta allir eitthvað.“
Til að lifa góðu lífi með MS er mikilvægt að lifa heilbrigðu, skemmtilegu og virku lífi, og gefa sér tíma til að gera það sem þykir ánægjulegt. Góður og endurnærandi svefn er nauðsynlegur, hollt og fjölbreytt mataræði og regluleg slökun. Of mikið álag eða stress gerir engum gott og getur aukið einkenni og jafnvel framkallað MS-köst.
Mikilvægi líkamsræktar og daglegrar útiveru er óháð líkamlegri getu og er oft vanmetin, en hún eykur bæði líkamlega og andlega vellíðan. Nauðsynlegt er fyrir alla að stunda einhverja líkamsrækt alla sína ævi, allt eftir getu hvers og eins, og gera helst daglega góðar vöðvateygjur. Ekki má heldur gleyma mikilvægi hugarþjálfunar til að efla hugræna færni, til dæmis með minnisleikjum og krossgátum. Best er að fella æfingar inn í daglega rútínu.
MS er ekki ávísun á örorku. Mikilvægt er að „sjúkdómavæða“ ekki sjálfan sig heldur finna styrkleika sína, leita lausna og tækifæra og setja sér raunhæf markmið. Snúa ósigri upp í sigur. Viðurkenna þá stöðu sem maður er í svo hægt sé að huga að framtíðinni og viðhalda virkni með því að halda áfram að taka þátt í samfélaginu.
Nauðsynlegt er að hafa húmor fyrir sjálfum sér og þeim aðstæðum sem maður getur lent í. Einnig er ómetanlegt að geta talað við einhvern sem maður treystir ef manni líður illa. Hver og einn einstaklingur þarf að ákveða hvernig hann ætlar að takast á við afleiðingar sjúkdómsins og vinna úr því sem hann hefur. Hvernig til tekst hefur mikil áhrif á líðan hans og fjölskyldunnar.
Tíminn fyrst eftir greiningu er auðvitað erfiður. Það birtir þó yfirleitt til eftir því sem tíminn líður og einstaklingur aflar sér meiri upplýsinga og lærir á einkenni sín. Það er því um að gera að umbylta ekki lífi sínu og framtíðarplönum strax í kjölfar greiningar.
Að vera með MS þýðir ekki að þú þurfir að gefa drauma þína upp á bátinn heldur þarftu bara að endurhugsa hvernig á að lifa þá.
Stundum tekur lengri tíma að gera ýmsa hluti sem áður tóku skamman tíma. Þá þarf að hugsa um mikilvægi hlutanna og forgangsraða verkefnum. Í vinnunni getur þurft að breyta vinnutíma eða starfsaðstöðu til að gera hana auðveldari.