ÞvagblöðruvandamálÞvagblöðruvandamál 

 

 

 

 

  

Erfiðleikar með tæmingu                                                         Þvagfærasýking

 

Erfiðleikar með tæmingu

Allt að 75% einstaklinga með MS, bæði konur og karlar, eiga í einhvers konar vandræðum með tæmingu þvagblöðrunnar, sérstaklega þeir sem eiga erfitt með gang. Það er vegna þess að tenging taugaþráða á milli mænu og þvagblöðru er fyrir neðan tengingu mænu til fóta og boð um nauðsyn tæmingar þvagblöðru ná því ekki eðlilega til og frá heila.

Einkennandi fyrir MS er að fólki verður „brátt“ og á af þeim sökum á hættu að ná ekki á salerni og missa þar með þvag.

Erfiðleikar með þvagblöðruna eru þó ekki alltaf MS-sjúkdómnum að kenna. Hafið samband við lækni eða hjúkrunarfræðing ef þið eigið í vandamálum með þvaglát.

 

Vandamálin geta verið:

  • Ofvirk þvagblaðra: Stöðug og skyndileg þörf fyrir að tæma blöðruna. Taugarnar senda boð til blöðru um tæmingu þó aðeins lítið magn af þvagi sé í blöðrunni.
  • Lausheldni: Erfiðleikar með að halda þvagi. Oft og skyndileg þörf fyrir losun.
  • Erfiðleikar við að tæma blöðruna: Einstaklingur getur bæði haft vandamál með að byrja þvaglát en einnig að hafa ekki tilfinningu fyrir því hvort blaðran sé tóm. Þvagflæðið er ekki mikið og kemur með hléum. Þetta kallar á tíðar klósettferðir og jafnvel þvagleka á milli þeirra.  

Hjá fólki með MS er algengara að þvagblaðran sé lítil og ofvirk heldur en stór og vanvirk.

 

Meðferð og góð ráð:

Þvagblöðruvandamál eru einkar hvimleit þar sem þau geta endað með því að stjórna daglegu lífi viðkomandi. Ýmislegt er þó hægt að gera til að ná stjórninni aftur.

  • Fyrst og fremst má alls ekki sleppa því að drekka því það eykur m.a. hættu á þvagfærasýkingu. Eðlilegt er að drekka 1,5 - 2 lítra á sólarhring og pissa 4 – 7 sinnum á sólarhring. Hins vegar mætti sleppa því að drekka 2 - 4 tímum fyrir svefn til að forðast næturferðir á salerni.
  • Mjög mikilvægt er að tæma alltaf þvagblöðruna. Til að tæma betur er gott ráð að prófa að halla sér fram og/eða til hliðar á meðan setið er á salerninu. Karlmenn gætu þurft að setjast á salernið í stað þess að standa. 
  • Ákveðnar tegundir matar og drykkja erta þvagblöðruna. T.d. eru það drykkir sem innihalda koffín, áfengi, drykkir sem innihalda mikið af litarefnum, drykkir úr sítrusávöxtum og mikið kryddaður matur. Passa vel upp á að borða trefjaríka fæðu þar sem hægðatregða getur aukið einkenni ofvirkrar þvagblöðru.
  • Gott er að halda „dagbók“ eða skrá yfir hvað maður drekkur og borðar til að sjá hvort þetta eða hitt hafi áhrif á blöðruna. Hér má finna slóð á þvaglátaskrá sem hægt er að nota til þess.
  • Grindarbotnsæfingar gera kraftaverk og þarf ekki að gefa sér nema nokkrar mínútur á dag í nokkrar vikur til að þær fari að virka. Hér er að finna æfingar sem Landspítalinn hefur gefið út.  Einnig geta sjúkraþjálfarar gefið góð ráð.
  • Þvagbindi fyrir konur og karla eru ósýnileg hjálpartæki sem gera t.d. búðarferðir og ferðalög mun afslappaðri og þægilegri þar sem ekki þarf alltaf að svipast um eftir salerni. Þvagbindi fást í flestum apótekum. Með umsókn frá heimilislækni eða taugalækni er hægt að sækja um úttektarskírteini til Sjúkratrygginga Íslands sem gildir í nokkur ár til úttektar á þvagbindum í völdum verslunum, sjá bækling hér.  Einnig eru til þvagleggir og þvagpokar sem auðvelda tæmingu. SÍ tekur einnig þátt í kostnaði þeirra. Hægt er að fá heimsendingu. 
  • Til eru lyf, eins og Betmiga, Oxybutynin Mylan og Tolterodin, sem notuð eru til meðferðar við ofvirkri þvagblöðru og hafa reynst mörgum vel. Besta virknin er þó ef grindarbotnsæfingar eru gerðar samhliða.
  • Ef grindarbotnsæfingar skila ekki árangri og lyf virka illa eða ekki, er möguleiki á að fá bótox í þvagblöðruna. Slík aðgerð er framkvæmd af þvagfærasérfræðingi. Bótoxi er sprautað í vegg blöðrunnar til að draga úr taugaboðum og þar með vöðvasamdrætti og þvagleka. Þvagið helst þannig betur og lengur í blöðrunni. Aðgerðin virkar í nokkra mánuði og upp undir ár en áhrif botoxins dvínar með tímanum. Fyrst eftir aðgerðina þarf því að nota þvaglegg nokkuð reglulega til að tæma blöðruna. Hliðarverkun bótoxaðgerðar er aukin hætta á (endurteknum) þvagfærasýkingum með notkun þvagleggja og/eða ef þvagblaðran er ekki tæmd fullnægjandi eða reglulega.
  • Hægt er að greina lélega tæmingu þvagblöðru með ómskoðun og sérstakri rannsókn á þvagfæradeild LSH. Stundum þarf að nota þvaglegg til að tæma blöðruna.   

 

Þvagfærasýking

Þvagfærasýking er nokkuð algeng meðal einstaklinga með MS. Ástæður þess eru m.a. erfiðleikar við að tæma þvagblöðru, notkun þvagleggja, erfiðleikar við að viðhalda góðu hreinlæti við grindarbotn, minni hreyfigeta og blöðrulömun. Þvagfærasýkingu, eins og aðrar sýkingar, þarf alltaf að taka alvarlega og leita skal strax til læknis/ heilsugæslu til að fá meðhöndlun því annars er hætta á því að sýkingin fari í nýrun.

Mikilvægt er að vera á verði gagnvart einkennum þvagfærasýkingar því hún getur aukið á MS-einkenni og líkst MS-kasti.

 

Hvað er þvagfærasýking?

Þvagfærasýking er það þegar bakteríur komast upp þvagrásina, í blöðru eða jafnvel til nýrna. Þar fjölga þær sér og valda einkennum sýkingar. Yfirleitt er um að ræða bakteríur frá endaþarmi þess sem sýkist. Sýkingin getur verið bundin við þvagblöðru eða blöðruhálskirtil (hjá körlum) eða náð til nýrna.

Það getur verið að bakteríur séu í þvaginu án þess að einstaklingur hafi einkenni um sýkingu.

 

Einkenni

Einkenni þvagfærasýkingar eru svipaðar truflunum á þvagblöðrustarfsemi, sjá hér að framan. 

 

Staðbundin einkenni þvagfærasýkingar geta verið eitt eða fleiri:

  • Tíð þvaglát
  • Næturþvaglát
  • Lítið þvag í einu
  • Mikil þvaglátsþörf
  • Sviði við þvaglát
  • Þvagið er dökkt og/eða gruggugt
  • Illa lyktandi þvag
  • Blóð í þvagi
  • Verkur yfir blöðrustað
  • Kvið- og bakverkir
  • Þvagleki/þvagteppa

 

Almenn einkenni geta verið eitt eða fleiri:

  • Hár líkamshiti (getur líka verið án hita)
  • Hrollur
  • Slappleiki
  • Ógleði/uppköst
  • Niðurgangur
  • Breyting á meðvitundarástandi

  

Sýking eða ekki?

Í apóteki er hægt að kaupa þvagprufuglös og sérstaka strimla (3 strimlar í pakka) til að setja í þvag, til að kanna hvort um sýkingu sé að ræða eða ekki. Það er líka hægt að fara með þvagprufu á heilsugæslustöð til að athuga með sýkingu.

Áður en pissað er í þvagprufuglas er mikilvægt að þvo sér vel um hendur og að neðan til að koma í veg fyrir að sýnið mengist. Best er að fá svokallað miðbunuþvag, en þá fer fyrsta bunan í salernið, síðan í sýnaílátið og blaðran svo tæmd í salernið.

Ef strimlaprófið er jákvætt eða grunur er um sýkingu skal hafa samband við heimilislækni/hjúkrunarfræðing á heilsugæslu sem gæti óskað eftir þvagprufu til að senda í ræktun til að finna út hvaða bakteríur valda sýkingunni, en slík ræktun tekur þrjá virka daga.

Ef einkenni eru mjög skýr, strimlapróf er jákvætt eða einstaklingur hefur fengið þvagfærasýkingar áður getur læknir ákveðið að setja viðkomandi samdægurs á sýklalyfjameðferð.

Við endurteknar sýkingar og þegar einstaklingur hefur lært að meta einkenni sín er stundum gefinn út fjölnota lyfseðill eða einstaklingur látinn taka smáskammta sýklalyf daglega sem fyrirbyggjandi meðferð.

 

Meðferð og fyrirbyggjandi ráð

  • Meðhöndla þarf sýkingu með lyfjum í langflestum tilvikum því annars er möguleiki á því að sýkingin fari í nýrun
  • Drekka vel, helst um 2 - 3 lítra af vökva á dag (vatnið er best og jafnvel trönuberjasafi)
  • Taka trönuberjatöflur daglega (fást í heilsuhillum verslana eða í apótekum)
  • Súrt er gott gegn sýkingu, eins og sítrónur, sítrónusafi eða c-vítamín
  • Gæta þess að tæma þvagblöðruna vel og reglulega
  • Viðhalda góðu hreinlæti
  • Konur ættu að þurrka sig að neðan þannig að þær byrji að framan og endi að aftan og karlmenn ættu að taka forhúðina frá áður en þeir hafa þvaglát
  • Hafa þvaglát eftir kynlíf
  • Forðast krem og sprey á kynfærasvæðið
  • Fara í sturtu frekar en í bað
  • Forðast freyði- og olíubað
  • Vera í nærbuxum (helst úr bómull) sem þrengja ekki að þvag- og kynfærum

 

Frekari fróðleikur:

 

 Myndir hér og hér