par

Lífsviðhorf einstaklings sem greindur hefur verið með langvinnan sjúkdóm breytist óhjákvæmilega. Sjálfsmyndin getur beðið hnekki og efasemdir um eigið ágæti látið á sér kræla. Jafnvel gæti hann átt í erfiðleikum með að sætta sig við getuleysi á einhverju sviði, að vera orðinn byrði á öðrum og háður aðstoð. Skapgerðabreytingar geta verið afleiðingar þessa en líka átt undirrót í sjúkdómnum sjálfum, þ.e. taugaskemmdum.

Sjúkdómurinn veldur bæði sjáanlegum sem og óljósum einkennum. Einkenni hans gætu því hafa komið fram löngu á undan greiningu og haft áhrif á samskipti hjóna/ para án þess að þau hafi gert sér grein fyrir því.

Fyrst eftir greiningu getur óvissan um framtíðina og afleiðingar sjúkdómsins komið af stað miklu tilfinningaumróti hjá pörum og margir átta sig ekki á því hvernig hinum aðilanum líður við þessar breyttu aðstæður.

Sum sambönd styrkjast í kjölfar erfiðleika en önnur veikjast og enda jafnvel með skilnaði. Sumir makar eiga erfitt með að takast á við erfiðleikana sem fylgja sjúkdómnum, sérstaklega þegar hann ágerist, en aðrir standa eins og klettur við hlið maka síns, sama hvað gerist.

Hinn MS-greindi einstaklingur getur fundið fyrir minna sjálfstrausti og fundist að makinn geti varla elskað og viljað hann lengur þar sem viðkomandi upplifir sig ekki eins aðlaðandi og áður. Hræðsla við að missa maka sinn vegna sjúkdómsins er því ofureðlileg og getur vakið upp þörf fyrir staðfestingu makans á ást, væntumþykju og öryggi.

Pör ættu alltaf að gefa sér tíma til að gera eitthvað skemmtilegt saman og geyma að ræða daglegt amstur eða sjúkdóminn stund og porstund. Það er heldur ekkert að því að gera skemmtilega hluti hvort í sínu lagi.

Gott parasamband byggir á gagnkvæmu trausti og tillitssemi. Báðir aðilar þurfa að geta bæði gefið og tekið og aðlagað sig að aðstæðum hverju sinni. Árangursrík leið til að vera í traustu og nánu sambandi er að vera heiðarleg hvort við annað og deila tilfinningum, skoðunum og áformum með því að taka sér tíma til að tala saman, hlusta hvort á annað og leysa sameiginlega úr áskorunum hins daglega lífs.

Hvenær er heilbrigði makinn umönnunaraðili og hvenær maki? Báðir aðilar þurfa að vera sammála um hvar sú lína er dregin. Þeir þurfa einnig að vera ásáttir um nýja verkaskiptingu á heimilinu og um mikilvægi þess að heilbrigði makinn gefi sér líka tíma til að hugsa um sjálfan sig og sinni áhugamálum sínum. Hinn heilbrigði má ekki „veikjast“ með maka sínum.

Ýmis aðstoð og hjálpartæki eru í boði til að létta á heimilinu og við umönnun ef á þarf að halda, og er betra að fá slíka aðstoð fyrr en síðar. Hjónin/parið geta þá einbeitt sér hvort að öðru og fjölskyldunni. 

por

Gagnlegt er að leita upplýsinga um sjúkdóminn og eiga einlægar samræður um afleiðingar hans hvort við annað, fjölskyldu og/eða vini og leita lausna til að takast á við þennan óboðna gest. Einnig er mikilvægt að geta leitað til sérfræðings um sálrænan stuðning og ráð, hvort í sínu lagi eða saman.

 

 

Sjá greinasafn um parasambönd hér.