Segulómun gefur góðar myndir af miðtaugakerfinu og er mikilvægt til greiningar á MS. Segulómskoðun er einnig hægt að nota til að meta virkni sjúkdóms. 

Segulomun

Við dæmigerðan MS sjást segulskærar eða hvítar skellur (MS-ör/MS-skemmdir/ e. plaques) í heila og stundum í mænu á segulómunarmyndum. Slíkar breytingar eru ekki alltaf sértækar fyrir MS en ákveðið mynstur af þeim ásamt einkennum er notað til greiningar.

Til þess að meta virkni einstakra breytinga eða skellna er hægt að nota svokallað skuggaefni (gadoliníum).

Til einföldunar má segja að í virkri skellu (e. active plaque) er meira blóðflæði og því safnist þetta efni meira fyrir í þeim og aðgreinir þær frá eldri eða köldum skellum sem samanstanda af meiri örvef.

Segulómrannsóknir eru oft endurteknar til þess að fylgjast með framgangi sjúkdóms og stundum til að meta hvort svörun sé við meðferð.

Ekki er alltaf 100% samsvörun milli einkenna og myndrannsókna. Nýjar skellur geta komið fram án einkenna og ný einkenni komið án þess að nýjar skellur greinist.