Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Máttminnkun í fæti eða báðum fótum getur valdið vandræðum með gang og jafnvægi sem eykur fallhættu.
Máttminnkun í bol líkamans (búk) getur valdið erfiðleikum með rétta líkamsstöðu og þarmastarfsemi.
Rétt er að hafa í huga að þættir eins og sýkingar, vökvaskortur, rangt mataræði eða of mikil áreynsla, jafnvel almennt álag og þunglyndi, getur orsakað þreytu, slappleika eða jafnvel máttleysi. Svefntruflanir og MS-þreyta geta einnig haft áhrif á máttleysi. Þetta getur orsakað að fyrr tilkomnir erfiðleikar við til dæmis gang eða lömun í fótum eða klaufska í höndum getur aukist. Þegar svona er ástatt er ekki um eiginlegt MS-kast að ræða enda ganga einkennin til baka þegar sýkingin eða hinir þættirnir eru að baki.
Ástæður máttleysis geta verið tvenns konar; bein afleiðing MS eða óbein.
Skemmdir á taugum hægja á og trufla taugaboð sem gerir það erfiðara að hreyfa vöðva en líkamlegt form einstaklingsins segir mikið til um óbeinu áhrifin. Ef formið er eða hefur verið lélegt getur það aukið máttleysið. Ónotaðir eða lítt notaðir vöðvar verða sífellt veikari en hægt er að koma í veg fyrir það með æfingum og því að vera eins virkur og hægt er.
Máttleysi hefur áhrif á jafnvægi og göngu og því er nauðsynlegt að vinna á móti einkennum eins og mögulegt er, til dæmis með æfingum. Mælt er með því að byggja sig upp jafnt og þétt með reglubundnum líkamsæfingum í stað þess að taka hressilega á því stöku sinnum.
Talaðu um einkenni þín við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að finna fyrir máttleysi. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.
Lumir þú á fleiri góðum ráðum um hvernig takast megi á við máttleysi, endilega deildu þeim með öðrum með því að skrifa okkur hér (þarf ekki að vera undir nafni).
Hjá Styrk, sjúkraþjálfun, miða æfingar að því að efla styrk, færni, jafnvægi og úthald. Þjálfunin fer fram í tveimur hópum sem miða við getu og færni einstaklinganna. Þjálfunin er þó einstaklingsmiðuð.
Mjög góð aðstaða er hjá Styrk, bæði til hópþjálfunar og æfinga í tækjasal. Öllum er frjálst að koma og taka prufutíma eða fylgjast með. Æfingarnar þykja mikil áskorun, einstaklega fjölbreyttar og skemmtilegar. Enginn tími er eins. Sjá nánar hér og myndir hér og hér.