Verkir 

Verkir geta komið og farið snögglega en líka verið tímabundnir eða varanlegir. Þeir geta verið þolanlegir, en líka verið óbærilegir, stöðugir verkir sem hafa áhrif á líðan og virkni í daglegu lífi. Sem betur fer er ýmislegt hægt að gera.

Verkir hjá MS-greindum geta orsakast af taugaskemmdum vegna sjúkdómsins en líka tengst stoðkerfinu.

 

Taugaverkir

Taugaverkir tengjast sködduðum taugaboðum. Þeir koma skyndilega og einkennast af kröftugum verkjaskotum sem standa yfir í stuttan tíma í einu. Oft í 10-20 sekúndur í einu en sjaldan meira en í eina mínútu. Hins vegar koma einkennin oft í bylgjum, allt að 100 sinnum á dag.

Taugaverkir eru algengastir í andliti en geta líka komið fram annars staðar. Þegar taugaverkir koma fram í fótleggjum er það oft ranglega greint sem brjósklos.

Taugaverkir koma oft þegar afmörkuð húðsvæði eru snert en það er ekki algilt.

 

Taugaverkir eru margskonar:

MS-faðmlagið (e. MS hug) er eins og að hafa þéttbundið band eða teygju um brjóstkassann (á svæðinu á milli háls og mittis) eða finna þrýstingstilfinningu frá annarri hlið líkamans. Sumum finnst erfitt eða sárt að anda. Þessi lýsing á einkenninu getur átt við mun alvarlegra ástand eins og brjóstverk eða hjartaverk. Það má því alls ekki skrifa brjóstverk sjálfkrafa á MS-faðmlagið, heldur leita tafarlaust á Bráðavaktina verði andþrengsla eða brjóstverkja vart, nema að höfðu samráði við lækni.

MS-faðmlagið er einnig að finna í höndum eða fótum, t.d. um úlnlið eða um ökkla, og líður einstaklingnum þá jafnvel eins og hann sé stöðugt með hanska, í þröngum sokkum eða í stígvélum. Sumir fá þessa tilfinningu um höfuðið.

MS-faðmlagið getur verið allt frá því að vera létt pirrandi til að vera mjög sársaukafull tilfinning. Tilfinningunni er helst lýst sem þrýstingi, verk, ertingi eða brunatilfinningu. Eins og með aðra taugaverki geta þeir staðið stutt og skarpt yfir í stuttan tíma en líka verið langvarandi.

Orsökina er að leita í skemmdum taugaboðum og, í tilviki faðmlags um brjóstkassa, spasma í litlum vöðvum sem liggja á milli rifbeinanna sem hjálpa til við að þenja út brjóstkassann þegar andað er.

Verkir vegna skyntruflana. Einstaklingur finnur þá ekki eingöngu fyrir dofa, heldur náladofa, aukinni snertiviðkvæmni, kulda, brunatilfinningu o.fl.

Lhermitte´s einkennið er dæmi um taugaverki sem geta komið skyndilega en vara stutt. Það stafar af truflun ofarlega í hálsmænu og lýsir sér eins og rafstraumur niður bak og jafnvel út í útlimi þegar einstaklingur beygir höfuðið fram.

Þríburataugaverkur (e. trigeminal neuralgia) lýsir sér eins og rafstraumsverkur öðrum megin í andliti. Þríburataugin stýrir því að kyngja og tyggja. Verkirnir koma fram þegar viðkomandi tyggur, kyngir, brosir eða burstar tennur.

 

Verkir frá m.a. stoðkerfi 

Margir þjást af verkjum frá vöðvum og liðamótum sem ekki eiga upptök sín i taugakerfinu en eru afleiðingar MS. Verkirnir geta stafað af spasma í vöðvum, rangri líkamsbeitingu og bólgum, aðallega frá þvagblöðru, frá meltingarvegi og vegna kyrrsetu eða hreyfihömlunar.

Tiltölulega algeng einkenni við mænutruflunum eru dofi og ónot í höndum og fótum. Eigi einstaklingur við aukna stífni í útlimum að etja fylgir því oft dofi og ónot, jafnvel verkir.

Verkir geta aukist við hita, kulda, eftir lélegan svefn, þreytu, hreyfierfiðleika, lágt sjálfsmat, einmannaleika eða þunglyndi. Þá getur hjálpað að leita lausna við þessum einkennum samhliða meðhöndlun verkja.

 

Meðferð og góð ráð:

Að vera með langvarandi verki getur verið mjög íþyngjandi, bæði líkamlega sem andlega. Verki er þó yfirleitt hægt að meðhöndla. Hvers kyns hreyfing, sjúkraþjálfun og teygjur eru grundvallaratriði í meðferð ásamt réttri líkamstöðu í hvíld og við vinnu. 

Mikilvægt er að þú reynir sjálf(ur) að átta þig á hvað getur valdið verkjunum og að þú bregðist við. Það væri til dæmis með því að forðast þreytu, sofa vel eða athuga hvort líkamlegt eða andlegt álag sé of mikið. Einnig að athuga hvort um sýkingu sé að ræða, hvort sjúkraþjálfun sé ábótavant eða hvort bæta megi teygjuæfingar eða eigin æfingar.

  • Leitaðu strax á Bráðavaktina ef þú ert með brjóstverk.
  • Sjúkraþjálfarar geta einnig greint vandann ásamt því að veita upplýsingar og gefa góð ráð um æfingar, líkamsstöðu og hjálpartæki. Þjónusta sjúkraþjálfara fellur undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands, sjá hér
  • Gott er að hreyfa sig reglulega og gera vöðvateygjur daglega. Sund er gulls ígildi.
  • Gefa sér tíma í reglulega (djúp)slökun  
  • Þarf að skoða mataræðið
  • Halda „sársaukadagbók“ til að læra á sjálfan sig. Með því er hægt að forðast aðstæður sem geta framkallað verki.  
  • Þjálfa athyglina frá sársaukanum á meðan verkirnir standa yfir, þ.e. að færa sársaukann frá því að vera í forgrunni til að vera meira í bakgrunni, með því t.d. að „temja hugann“ eða hafa eitthvað áhugavert og skemmtilegt fyrir stafni.  
  • Iðjuþjálfi eða sjúkraþjálfari geta aðstoðað við að yfirfara aðstæður á heimili eða á vinnustað með tilliti til líkamsstöðu við vinnu og hvíld og eftir atvikum ráðlagt um notkun hjálpartækja. 
  • Lyfjagjöf fer eftir hvar verkir eru og hver orsök þeirra er.  

 

 
Talaðu um einkenni þín
 við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að fá verki. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.

 

Góð ráð frá MS-fólki:

  •  

 

Lumir þú á góðum ráðum um hvernig takast megi á við verki, endilega deildu þeim með öðrum með því að senda tölvupóst á netfangið msfelag@msfelag.is

 

Fróðleiksmolar:

 

 

 

Mynd