Tegund meðferðar

Fyrsta-meðferðar lyf til meðferðar á MS í köstum.  Einstaklingurinn þarf að uppfylla a.m.k. annað skilmerkja í  a) eða b): 

  a)     Eitt eða fleiri staðfest MS köst á síðustu 12 mánuðum og  segulómun af heila og mænu sýnir dæmigerðar breytingar fyrir MS sjúkdóm.

b)     Hafi sjúklingur verið á annarri fyrirbyggjandi meðferð við MS en þoli hana illa vegna aukaverkana eða að hún sé talin of áhættusöm.

Hve oft gefið

1 tafla á dag. Töflurnar á að gleypa í heilu lagi með nægilegu vatni. Aubagio má taka með eða án matar.

Geymsla lyfs

Engin sérstök fyrirmæli eru um geymsluaðstæður lyfsins.

Verkun

Virkni lyfsins er svipuð og Interferon-lyfjanna og Copaxone, þ.e. það fækkar köstum um þriðjung, dregur úr alvarleika kasta auk þess að lengja tímabil á milli kasta. 

Virkni

Aubagio (teriflunomide) er ónæmistemprandi lyf með bólgueyðandi eiginleikum. Það hindrar m.a. fjölgun hvítfrumna (árásagjarnar B- og T-frumur) ónæmiskerfisins.

Aukaverkanir

Algengustu aukaverkanirnar eru niðurgangur, hækkað ALT-gildi (lifragildi), ógleði og hárlos. Einkennin eru yfirleitt væg til miðlungs alvarleg og skammvinn.

Það geta enn komið fram óþekktar og alvarlegar aukaverkanir þar sem um tiltölulega nýtt lyf er að ræða.

Frábending

Helstu frábendingar eru konur á barneignaraldri sem þurfa að huga að notkun öflugra getnaðarvarna á meðan meðferð varir og eftir að meðferð lýkur. Það tekur lyfið að meðaltali 8 mánuði, en hjá sumum konum allt að tveimur árum, að hreinsast úr líkamanum en hægt er að flýta brotthvarfi lyfsins með ákveðinni meðferð verði kona þunguð eða ákveði að verða það, sjá nánar hér.

Hætta skal Aubagio-meðferð tafarlaust ef grunur leikur á þungun og hafa samband við lækni eða hjúkrunarfræðing. 

Konur skulu ekki taka Aubagio með barn á brjósti. 

Fyrir karla er lítil hætta talin á eiturverkunum á fósturvísa og fóstur meðan á meðferð þeirra með Aubagio stendur.

Eftirlit

Hefur áhrif á lifrarstarfsemi og á fjölda blóðfrumna og á ónæmiskerfið. Því þarf að taka lifrarpróf reglulega, fylgjast með blóðmynd og blóðþrýstingi.

Lifragildi skal mæla með blóðprufu á tveggja vikna fresti á fyrstu sex mánuðum meðferðar og á 8 vikna fresti eftir það, eða eins og þörf krefur með tilliti til klínískra merkja og einkenna á borð við óútskýrða ógleði, uppköst, kviðverki, þreytu, lystarleysi eða gulu og/eða dökkt þvag. 

Taka skal þungunarpróf áður en meðferð hefst, ef möguleiki er á þungun.

Biðtími ef skipta þarf um lyf

Byrja má strax á meðferð með Aubagio eftir að meðferð með Interferon-lyfjum eða Copaxone er hætt, og öfugt. Hins vegar þurfa að líða allt að 3 mánuðir sé meðferð með Tysabri eða Gileyna hætt fyrir meðferð með Aubagio og 3,5 mánuðir sé meðferð með Aubagio hætt til að hefja aðra meðferð. 

Fyrst notað á Íslandi

Maí 2015. 

Öryggiskort

AuLæknir eða hjúkrunarfræðingur mun afhenda sjúklingi öryggiskort um Aubagio  sem nauðsynlegt er að kynna sér vel, hafa ávallt á sér og framvísa við allar læknisheimsóknir. 

 

 

 

Nánari upplýsingar um lyfið

Samantekt á eiginleikum Aubagio (EMA/Lyfjastofnun), uppfært 25.01.2016, sjá hér

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins, uppfært 25.01.2016, sjá hér (bls. 33-39)

Umsagnir EMA, lyfjastofnunar Evrópu, uppfært 25.01.2016, sjá hér

Öryggisupplýsingar, uppfært 26.03.2014, sjá hér

Sérstakt eftirlit, sjá hér

Bæklingur um aðferð til að hraða brotthvarfi á Aubagio, sjá hér

Annað

Sjúklingar á ónæmisbælandi MS-lyfjum mega fá bóluefni sem ekki eru lifandi (á við flensusprautuna). Bólusetning með lifandi bóluefnum er ekki æskileg meðan á meðferð stendur og í allt að 4-6 mánuði eftir að meðferð lýkur. Spyrjið alltaf heilbrigðisstarfsmann fyrir bólusetningu hvort bóluefnið sé lifandi eða ekki.

Lyfið Leflunomide, sem hefur sama umbrotsefni og er í Aubagio, hefur verið notað til meðferðar á gigt.

 

 

BB/október 2017