Ef einstaklingur á við miklar tilfinningasveiflur að stríða þýðir það að hann getur ekki lengur stjórnað tilfinningum sínum á viðeigandi hátt. Einstaklingurinn ræður ekki lengur við að hemja grát sinn, hvort sem er yfir gleðiviðburðum eða dapurlegum atburðum. Hann getur einnig orðið reiður vegna smámuna og verða reiðiviðbrögðin (oft) ofsafengin og úr öllu samhengi við eðli atburðarins. Að öllu jöfnu koma tilfinningaumbrot, hvort sem um er að ræða grát, reiði, pirring eða annað, í kjölfar einhvers ákveðins atburðar. Þetta er ekki það sama og stjórnlaus grátur og/eða hlátur að tilefnislausu.

Jón var fertugur og hafði þurft að hætta að vinna vegna MS. Hann ákvað þá að hefja nám að nýju. Því fylgdu hins vegar ófyrirséð vandamál þar sem hann hafði ekki fulla stjórn á tilfinningum sínum innan um skólafélaga sína. Í skólanum brást hann oft illa við þegar einhver talaði og fann sig knúinn til að setja ofan í við þá sem voru að tjá sig. Hann heyrði ekki alltaf hvað sagt var en greip þó sífellt fram í og kom með athugasemdir sem gátu verið óviðeigandi. Það pirraði Jón að hann gat ekki hamið sig. Hann fór í lyfjameðferð með litlum skammti af þunglyndislyfjum sem virkuðu þannig að hann gat hlustað og hugsað sig um áður en hann talaði.

Það á við um þessi einkenni sem og önnur MS-einkenni að tilfinningasveiflur leggjast mis þungt á einstaklinga, frá því að vera léttvægar til meiri og alvarlegri einkenna.

Einstaklingur sem stríðir við miklar tilfinningasveiflur er oft meðvitaður um að hann hafi brugðist við á óviðeigandi eða yfirdrifinn hátt. Mikilvægt er að vita að þessi sami einstaklingur getur líka orðið reiður eða dapur við aðstæður þar sem það er fullkomlega eðlilegt.tilfinningasveiflur

  • Fyrir flesta er auðveldara að takast á við tilfinningasveiflur ef þeir viðurkenna og skilja einkennin.
  • Það hjálpar ef nánustu vinir og fjölskylda þekkja og eru meðvituð um einkennin því það eykur skilning þeirra og umburðarlyndi.
  • Þunglyndislyf geta unnið gegn tilfinningasveiflum.
  • Athuga þarf hvort einhverjar sérstakar aðstæður auki sterk tilfinningaviðbrögð einstaklingsins svo hann hafi möguleika á því að reyna að draga úr eða forðast þær aðstæður.
  • Í einhverjum tilvikum getur einstaklingurinn gert samkomulag við sína nánustu um hvernig þeir geta brugðist við stjórnlausum tilfinningaviðbrögðum hans, t.d. með því að þeir yfirgefi herbergið eða þegi bara og svari hvorki til baka né gefi færi á sér í rökræður þegar þessar aðstæður koma upp.
  • Tilfinningasveiflur einstaklings geta verið fjölskyldu hans og vinum mjög erfiðar. Það á sérstaklega við ef hann skilur ekki aðstæðurnar og viðurkennir ekki vandann. Ef staðan er þannig geta nánustu aðstandendur þurft á fræðslu og sálfræðiaðstoð að halda.