Tegund meðferðar

Gefið þeim sem ekki þola Tysabri eða Gilenya eða MS-lyf virka ekki sem skyldi.

Hve oft gefið

Innrennslislyf, gefið á sjúkrahúsi á sex mánaða fresti. Skammtastærð að jafnaði 500 mg en getur einnig verið 1000 mg. 30-60 mínútum fyrir inngjöf er sjúklingi gefið 2 mg andhistsmín (Tavegyl), 1000 mg paracetamol og 100 mg Solu-Medrol sterar.

Virkni

Góður árangur af notkun og í rannsóknum.

Verkun

Virka efni lyfsins, rituximab, er mótefni sem eyðileggur B-frumur í blóði, þ.e. hefur áhrif á hvítu blóðkornin. Lyfið hefur þannig áhrif á ónæmiskerfið og getur því aukið líkur á sýkingum. 

Aukaverkanir

Þolist almennt vel og engar alvarlegar aukaverkanir. Vera samt á varðbergi gagnvart PML, sjá hér.

Einnig getur lyfið aukið áhættu á sýkingum. Einkenni sýkingar geta verið þrálátur hiti eða hósti, þyngdartap, verkur án áverka, almenn vanlíðan eða slen.

Hafið strax samband við lækni eða MS-hjúkrunarfræðing ef grunur vaknar um aukaverkun eða sýkingu.

Frábending

Láta lækninn vita ef þú hefur undirgengist krabbameinsmeðferð eða fengið ónæmisbælandi lyf, þjáist af virkri sýkingu eða alvarlegu vandamáli í ónæmiskerfi.

Eftirlit

Á 6 mánaða fresti með blóðprufum. Þvagrannsókn ef grunur er um þvagfærasýkingu í aðdraganda lyfjagjafar.

Biðtími ef skipta þarf um lyf

Biðtími á milli lyfjategunda er háð mati taugalæknis en að jafnaði 5-6 vikur á milli rituximab og Tysabri/Gilenya.

Fyrst notað á Íslandi

Ekki markaðssett sem MS-lyf. Hefur verið notað á Íslandi síðan 2012, fyrst undir lyfjaheitinu MabThera, frá síðari hluta 2018 undir lyfjaheitinu Blitzima og frá miðju ári 2019 undir heitinu Truxima. Sama virka efnið en mismunandi lyfjafyrirtæki.

Öryggiskort

Blitzima

Læknir eða hjúkrunarfræðingur mun afhenda sjúklingi öryggiskort um lyfið sem nauðsynlegt er að kynna sér vel, hafa ávallt á sér og framvísa við allar læknisheimsóknir í allt að 2 ár eftir að meðferð lýkur. 

 

 

 

 

Nánari upplýsingar um lyfið

Ekki með markaðslyfi við MS-sjúkdómnum.

Samantekt á eiginleikum Truxima vegna annarra sjúkdóma en MS (EMA/Lyfjastofnun), uppfært (ekki uppgefið), sjá hér

Öryggisupplýsingar Truxima, uppfært í júní 2019, sjá hér

Öryggiskort Truxima, uppfært í október 2018, sjá hér

Umsagnir EMA, lyfjastofnunar Evrópu, uppfært 17.08.2017, sjá hér

Annað

Ræða rituximab-meðferðina og kynna einkenni PML fyrir fjölskyldu og vinum.

Sjúklingar á ónæmisbælandi MS-lyfjum mega fá bóluefni sem ekki eru lifandi (á við flensusprautuna). Bólusetning með lifandi bóluefnum er ekki æskileg meðan á meðferð stendur og í allt að 4-6 mánuði eftir að meðferð lýkur. Spyrjið alltaf heilbrigðisstarfsmann fyrir bólusetningu hvort bóluefnið sé lifandi eða ekki.

Ef þú telur að þú þurfir á bólusetningu að halda í náinni framtíð, þ.á m. nauðsynlegum bólusetningum til að ferðast til annarra landa, skaltu láta lækni þinn eða hjúkrunarfræðing vita með góðum fyrirvara, eða helst áður en meðferð hefst. Ákveðin bóluefni má ekki gefa samhliða rituxmab eða næstu mánuði eftir rituximab-meðferð. Sjá nánar um bólusetningar hér.

Nokkrar minni rannsóknir liggja fyrir um virkni rituximab sem meðferð við MS en engin stór  fasa-III rannsókn  hefur verið framkvæmd. Lyfið hefur því ekki markaðsleyfi sem MS-lyf. Rituximab var markaðssett 1997 til meðhöndlunar á eitilfrumukrabbameini, alvarlega virkri iktsýki, hnúðaæðabólgu og smásærri fjölæðabólgu. Rituximab hefur einnig verið notað við nýrnaskipti. 

Svíar byrjuðu að nota lyfið „off label“ árið 2008 fyrir þá sem ekki gátu verið á Tysabri. Reynsla Svía af notkun rituximab við MS er góð en um fjórðungur sænskra MS-sjúklinga, sem er á lyfjameðferð, er á lyfinu. Lyfið þolist vel, meðferðarárangur er góður, aukaverkanir þykja ásættanlegar og lyfið er mun ódýrara en sambærileg MS-lyf.

Off label“ þýðir að lyfið er ekki markaðssett til meðferðar á þeim sjúkdómi sem það er ávísað á, en talið er að meðferðarvirknin sé þess eðlis að kostir af notkun þess vegi upp mögulega áhættu. 

 

 

BB/desember 2019