MS-Sjúkdómurinn

Taugaskemmdir

MS er langvinnur bólgusjúkdómur í miðtaugakerfinu, þ.e. heila og mænu, þar sem ónæmiskerfið ræðst á mýelín, efnið sem myndar slíður utan um taugaþræði (taugasíma) og ræður hraða og virkni taugaboða. 

Afleiðingarnar felast í örum eða sárum á mýelínið (taugaskemmdir) sem hefur áhrif á leiðni taugaboða þannig að boð um til dæmis hreyfingu, tal eða hugsun truflast og ná illa eða ekki fram til 

viðeigandi líkamshluta og einkenni sjúkdómsins koma fram. 

Einkennin ganga að jafnaði til baka að hluta eða öllu leyti eftir nokkra daga eða vikur (MS-kast) en með tímanum geta einkennin orðið meira viðvarandi.

 

Örin (skemmdirnar) geta verið mörg og víðs vegar um miðtaugakerfið sem skýrir nafn sjúkdómsins, multiple sclerosis (MS) sem þýðir „mörg ör“. 

Góð lýsing á því sem gerist í MS er að hugsa sér rafmagnsvír þar sem plasteinangrunin hefur rofnað.

MS er ekki smitandi. Þáttur erfða er lítill og sjúkdómurinn hefur ekki mikil áhrif á lífslíkur.

 

 

 

 

MS-greining

MS er einn algengasti taugasjúkdómur sem leggst á ungt fólk. Á hverju ári greinast að jafnaði um 25 manns með MS á Íslandi, flestir á aldrinum 20-40 ára. Margir hafa upplifað MS-einkenni mörgum árum fyrir greiningu án þess að hafa gert sér grein fyrir því fyrr en litið er til baka. 

MS er um tvisvar til þrisvar sinnum algengari hjá konum en körlum en um orsök þess er ekki vitað. 

Við greiningu á MS er stuðst við:

* Skoðun taugalæknis.

* Sjúkrasögu og einkenni.

* Niðurstöður segulómunar (MR/MRI).

* Mænuvökvarannsókn sem gefur til kynna hvort um bólgu í miðtaugakerfinu sé að ræða.

* Sjónhrifrit sem sýnir leiðnihraða taugaboða í sjóntaugum og leiðir í ljós hvort um töf á taugaboðum sé að ræða, eins og getur gerst í kjölfar sjóntaugabólgu.

* Útilokun annarra sjúkdóma sem líkst geta MS svo sem vissra gigtarsjúkdóma, brenglaðrar starfsemi skjaldkirtils, heilaæxla, vissra sýkinga o.fl.

Til að uppfylla skilyrði MS-greiningar þarf einkenni um taugaskemmd að koma frá a.m.k. tveimur stöðum í miðtaugakerfinu og að einkennin hafi komið fram á mismunandi tíma. Greining getur þó byggst á einu MS-kasti séu viss skilyrði uppfyllt á segulómun. Greining á MS getur þó aldrei byggt eingöngu á niðurstöðu segulómunar.

 

Segulómun (MR/MRI)

Segulómun gefur góðar myndir af miðtaugakerfinu og er mikilvægt til greiningar á MS. Segulómskoðun er einnig hægt að nota til að meta virkni sjúkdóms.

 

Við dæmigerðan MS sjást segulskærar eða hvítar skellur (MS-ör/MS-skemmdir/e. plaques) í heila og stundum í mænu á segulómunarmyndum. Slíkar breytingar eru ekki alltaf sértækar fyrir MS en ákveðið mynstur af þeim ásamt einkennum er notað til greiningar.

Segulomun

Til þess að meta virkni einstakra breytinga eða skellna er hægt að nota svokallað skuggaefni (gadoliníum). 

Til einföldunar má segja að í virkri skellu (e. active plaque) er meira blóðflæði og því safnist þetta efni meira fyrir í þeim og aðgreinir þær frá eldri eða köldum skellum sem samanstanda af meiri örvef.

Segulómrannsóknir eru oft endurteknar til þess að fylgjast með framgangi sjúkdóms og stundum til að meta hvort svörun sé við meðferð.  

Ekki er alltaf 100% samsvörun milli einkenna og myndrannsókna. Nýjar skellur geta komið fram án einkenna og ný einkenni komið án þess að nýjar skellur greinist.

 

Einkenni

Fjöldi bletta sem fram koma á segulómunarmynd segja ekki til um alvarleika eða fjölda einkenna.

Ef blettir eru staðsettir í heila á svæði sem stýrir minniháttar aðgerðum þurfa afleiðingar taugaskemmdanna ekki að vera alvarlegar og einstaklingurinn verið (nær) einkennalaus. Hins vegar getur ein lítil MS-skemmd í mænu haft miklar afleiðingar í för með sér, svo sem dofa eða máttminnkun í fótum og erfiðleika við þvaglát. 

BlettirEinkenni

 

Hvað er MS-kast?

MS-kast er þegar einstaklingur upplifir ný eða breytt einkenni sem rekja má til bólgu í miðtaugakerfi. 

Til að einkenni geti talist til MS-kasts þurfa þau að vera til staðar í a.m.k. sólarhring. Kast varir almennt í nokkra daga eða vikur en getur þó einnig varað í nokkra mánuði samfleytt. Tími á milli kasta er einnig mjög mismunandi, allt frá vikum upp í nokkur ár. Sjúkdómsgangurinn er þannig ófyrirséður.

Gott er að láta taugalækni eða MS-hjúkrunarfræðing vita þegar grunur vaknar um MS-kast. Í það minnsta er ráðlagt að skrá hjá sér einkennin, hversu lengi þau vara og hvernig þau lýsa sér.

Ekki er um eiginleg köst að ræða þegar MS-einkenni aukast við hækkun líkamshita, til dæmis sótthita eða þegar einkenni versna af völdum sýkingar, s.s. þvagfærasýkingar sem getur verið með eða án sótthita. Sama á við um versnun einkenna af völdum líkamlegs og/eða andlegs álags.

 

Hvað gerist í MS-kasti? 

Það sem gerist í MS-kasti er að ónæmiskerfið „telur sig“ skynja utanaðkomandi áreiti. Til varnar áreitinu sendir það hvít blóðkorn úr blóðrásinni inn í gegnum blóð-heila-hömlurnar (e. blood brain barrier) sem er þéttriðið net æða sem á að vernda miðtaugakerfið. 

MSKast

Þegar inn í miðtaugakerfið er komið taka blóðkornin af óþekktum orsökum að ráðast á mýelínið sem einangrar og hjálpar til við flutning taugaboða um taugaþræði. Við árásina myndast rof eða sár á mýelínið. 

Þegar einangrunin (mýelínið) hefur rofnað koma einkenni sjúkdómsins fram við það að taugaboðin verða hægari eða falla niður. Einkennin fara eftir því hvar skemmdirnar eru staðsettar í miðtaugakerfinu, sjá Einkenni.

Á einhverjum tímapunkti stöðvast þessi árás hvítu blóðkornanna. 

Á meðan á henni stendur er talað um bólguviðbragð sem kemur fram sem skuggaefnisupphleðsla á segulómun. Örvefur myndast þegar bólgusvarinu lýkur. Ör eftir bólgu sjást sem hvítir blettir á segulómmynd, sjá Segulómun.

Í byrjun sjúkdómsferilsins er auðveldara fyrir frumur líkamans að gera við skaddað mýelín og fyrir taugakerfið að bæta upp eða finna nýjar leiðir framhjá þeim taugaskaða sem orðið hefur. Einkenni kastsins ganga þá til baka, ýmist að fullu eða með vægum varanlegum einkennum.

Með tímanum eða eftir endurtekin og jafnvel öflugri köst og fjölgun bólguskella, verða viðgerðir erfiðari þar sem þykkt mýelínsins verður aldrei sú sama fyrir og eftir viðgerð. Það veldur því að taugaboðin hægja á sér og taugaþræðir eyðileggjast eða eyðast. Einnig verður erfiðara fyrir taugakerfið að finna nýjar virkar taugabrautir, sérstaklega ef skemmdu svæðin eru stór eða nálægt hvert öðru. Þá sitja eftir einkenni sem geta valdið mismikilli viðvarandi skerðingu.

 

Meðhöndlun MS-kasta

Til eru ýmsar tegundir lyfja við MS; stungulyf, innrennslislyf og töflur/hylki. Lyfin hemja sjúkdómsvirkni og framþróun sjúkdómsins með því að koma í veg fyrir köst, fækka þeim eða stytta tímann sem þau standa yfir.

Í alvarlegri köstum, þ.e. þeim sem hafa í för með sér skerðandi einkenni, er oft gripið til steragjafar til að flýta því að kastið gangi yfir. Vægari köst eru stundum, en þó síður, meðhöndluð með sterum.

 

Þróun sjúkdómsferilsins

Nær ómögulegt er að segja fyrir um hvernig sjúkdómsferli einstaklings kemur til með að þróast. Sjúkdómurinn er mjög einstaklingsbundinn og fáir ef nokkrir geta algjörlega samsvarað sig öðrum einstaklingum með MS.

Sumir einstaklingar fá strjál og væg köst, aðrir fá verri köst og tíðari. Í milda forminu virðist sjúkdómurinn liggja í dvala og engin köst koma fram, jafnvel svo árum skiptir. Aðrir geta fengið mörg slæm köst á stuttum tíma. 

Þegar líður á sjúkdómsferlið getur sumum einstaklingum versnað smám saman án þess að um köst sé að ræða (síðkomin versnun). 

Með nýjum lyfjum sem hefta köst og framþróun sjúkdómsins er hins vegar ástæða til bjartsýni. Hjá mörgum einstaklingum halda lyfin sjúkdómseinkennum alveg í skefjum eða draga verulega úr þeim. 

Margir hafa væg eða engin einkenni eftir mörg ár með sjúkdóminn og enn fleiri lifa virku og sjálfstæðu lífi í mörg ár eftir greiningu.

Heilbrigður lífsstíll, meðal annars regluleg hreyfing og líkamsrækt, endurnærandi svefn ásamt góðu og fjölbreyttu mataræði, getur haft áhrif á þróun sjúkdómsferilsins. Of mikið álag eða stress gerir engum gott og getur aukið einkenni og jafnvel framkallað MS-köst.

 

Kenningar um orsök MS

Almennt er viðurkennt að MS er fyrst og fremst sjálfsónæmissjúkdómur þar sem ónæmiskerfið ræðst á eigin líkamsvefi. MS er ekki arfgengur sjúkdómur og ekki smitandi. Fæstir einstaklingar með MS eiga nána ættingja sem hafa MS en líkurnar eru þó um 2-5%. Líkurnar aukast ef um eineggja tvíbura er að ræða. 

Orsök MS er enn óþekkt. Talið er nokkuð víst að samspil erfða eða genasamsetningar, sem gera einstaklinginn móttækilegri fyrir MS-sjúkdómnum, og utanaðkomandi þátta svo sem búsetu, mataræðis, D-vítamínskorts, veirusýkingar og reykinga, komi af stað keðjuverkun sem kveiki á ónæmisvörn líkamans. Það gæti átt sér stað mörgum árum áður en einstaklingurinn verður var við einkenni eða greinist með MS.

 

 

 

Sjá bæklinginn Almennur fróðleikur, útg. í febrúar 2016, hér.