Hvað er MS-kast?

MS-kast er þegar einstaklingur upplifir ný eða breytt einkenni sem rekja má til bólgu í miðtaugakerfi.

Til að einkenni geti talist til MS-kasts þurfa þau að vera til staðar í a.m.k. sólarhring. Kast varir almennt í nokkra daga eða vikur en getur þó einnig varað í nokkra mánuði samfleytt. Tími á milli kasta er einnig mjög mismunandi, allt frá vikum upp í nokkur ár. Sjúkdómsgangurinn er þannig ófyrirséður.

Gott er að láta taugalækni eða MS-hjúkrunarfræðing vita þegar grunur vaknar um MS-kast. Í það minnsta er ráðlagt að skrá hjá sér einkennin, hversu lengi þau vara og hvernig þau lýsa sér.

Ekki er um eiginleg köst að ræða þegar MS-einkenni aukast við hækkun líkamshita, til dæmis sótthita, eða þegar einkenni versna af völdum sýkingar, s.s. þvagfærasýkingar sem getur verið með eða án sótthita. Sama á við um versnun einkenna af völdum líkamlegs og/eða andlegs álags.

Hvað gerist í MS-kasti?

Það sem gerist í MS-kasti er að ónæmiskerfið „telur sig“ skynja utanaðkomandi áreiti. Til varnar áreitinu sendir það hvít blóðkorn úr blóðrásinni inn í gegnum blóð- heila-hömlurnar (e. blood brain barrier) sem er þéttriðið net æða sem á að vernda miðtaugakerfið.

Þegar inn í miðtaugakerfið er komið taka blóðkornin af óþekktum orsökum að ráðast á mýelínið sem einangrar og hjálpar til við flutning taugaboða um taugaþræði. Við árásina myndast rof eða sár á mýelínið.

Þegar einangrunin (mýelínið) hefur rofnað koma einkenni sjúkdómsins fram við það að taugaboðin verða hægari eða falla niður. Einkennin fara eftir því hvar skemmdirnar eru staðsettar í miðtaugakerfinu.

 

 

MSKast

Á einhverjum tímapunkti stöðvast þessi árás hvítu blóðkornanna.

Meðan á henni stendur er talað um bólguviðbragð sem kemur fram sem skuggaefnisupphleðsla á segulómun. Örvefur myndast þegar bólgusvarinu lýkur. Ör eftir bólgu sjást sem hvítir blettir á segulómunarmynd.

Í byrjun sjúkdómsferilsins er auðveldara fyrir frumur líkamans að gera við skaddað mýelín og fyrir taugakerfið að bæta upp eða finna nýjar leiðir framhjá þeim taugaskaða sem orðið hefur. Einkenni kastsins ganga þá til baka, ýmist að fullu eða með vægum varanlegum einkennum.

Með tímanum eða eftir endurtekin og jafnvel öflugri köst og fjölgun bólguskella verða viðgerðir erfiðari þar sem þykkt mýelínsins verður aldrei sú sama fyrir og eftir viðgerð. Það veldur því að taugaboðin hægja á sér og taugaþræðir eyðileggjast eða eyðast. Einnig verður erfiðara fyrir taugakerfið að finna nýjar virkar taugabrautir, sérstaklega ef skemmdu svæðin eru stór eða nálægt hvert öðru. Þá sitja eftir einkenni sem geta valdið mismikilli viðvarandi skerðingu.

Meðhöndlun MS-kasta

Til eru ýmsar tegundir lyfja við MS; stungulyf, innrennslislyf, töflur og hylki. Lyfin hemja sjúkdómsvirkni og framþróun sjúkdómsins með því að koma í veg fyrir köst, fækka þeim eða stytta tímann sem þau standa yfir.

Í alvarlegri köstum, þ.e. þeim sem hafa í för með sér skerðandi einkenni, er oft gripið til steragjafar til að flýta því að kastið gangi yfir. Vægari köst eru stundum, en þó síður, meðhöndluð með sterum.