MS setridlogoSetrið er dagþjónusta og endurhæfingarmiðstöð í MS-húsinu að Sléttuvegi 5.

Í Setrinu er ekki aðeins fólk með MS-sjúkdóminn, þó það hafi forgang, heldur er þar einnig fólk með aðra taugasjúkdóma svo sem Parkinson og MND en einnig fólk í endurhæfingu eftir heilablóðfall eða aðra sjúkdóma og slys. 

Í Setrinu er boðið upp á mat yfir daginn, hjúkrun og umönnun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og félagsráðgjöf. Auk þess vinnustofu, félagsstarf og aðra þjónustu. 

Markmið Setursins er að aðstoða einstaklinga við að aðlagast breytingum á aðstæðum sínum sem fylgja í kjölfar sjúkdóma og að tryggja samfellda og samhæfða umönnun og þjálfun. Einnig að efla samvinnu og stuðning við fjölskyldur og aðstoðarhópa hvers einstaklings og að tryggja hæft og gott starfsfólk í hvetjandi starfsumhverfi.

Rekstur Setursins er fjármagnaður með samningi við Sjúkratryggingar Íslands, rekið á daggjöldum fyrir 45 einstaklinga á dag. Um 90 manns sækja þó MS Setrið á viku þar sem ekki koma allir daglega. Rekstur Setursins er aðskilinn frá rekstri MS-félagsins.

Tæki og tól í sjúkraþjálfunarsal og margir munir sem prýða Setrið eru að mestu gjafir frá MS-félaginu, velviljuðum einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum. Lesa má nánar um MS Setrið hér eða fá upplýsingar í síma 568 8630.