Einstaklingur með MS á það til að loka sig af, sérstaklega ef sjúkdómurinn ágerist. Þá er gott stuðningsnet fjölskyldu og vina ómetanlegt.samskipti Það er um að gera að láta einstaklinginn vita að stuðningsnetið sé til staðar með því m.a. að bjóða honum í bíltúr, í bíó eða leikhús, á kaffihús eða í heimsókn og að fara með honum í búðir eða bjóðast til þess að kaupa inn fyrir hann. Ekki gefast upp þó einstaklingurinn bregðist ekki alltaf vel við. Hann gæti afþakkað boðið vegna þess að hann nennir ekki, fær kvíðakast, er þunglyndur, hann vill ekki láta aðra verða vitni að erfiðleikum sínum eða einfaldlega að einkenni sjúkdómsins eru óþægileg þá stundina.

einn

 

Þrátt fyrir að einstaklingnum sé það í sjálfsvald sett hvort hann þiggi gott boð eða ekki er nauðsynlegt að vera vakandi fyrir því að hann einangrist ekki. Ef hann afþakkar boð aftur og aftur gæti þurft að reyna nýja aðferð til að fá einstaklinginn af stað.

saga

Stundum þarf að kyngja stolti til að af hlutunum geti orðið, eins og til dæmis að fá vinina til að ýta hjólastólnum eða skera fyrir sig kjötið. Það er yfirleitt erfiðast fyrst en síðan þegar einstaklingurinn finnur hvað allt verður þægilegra verður auðveldara að biðja um aðstoð. Með þetta eins og annað getur tekið tíma að sættast við aðstæður sínar og þurfa að biðja um aðstoð og/eða þiggja hana.

Í flestum tilfellum, ef ekki öllum, finnst aðstandendum og vinum gott að vera beðnir um aðstoð og veita hana gjarnan.

Það getur komið fyrir að fækki í vinahópnum ef einstaklingurinn hafnar ítrekað útréttri hönd eða ef skerðing hans gerir það að verkum að hann getur ekki lengur tekið þátt í sameiginlegum áhugamálum hópsins. Hins vegar getur vinahópur skipulagt viðburði sem henta getu einstaklingsins á hverjum tíma. Til dæmis gæti gönguhópur tekið sig saman og hist öðru hverju á kaffihúsi á milli þess að ganga á fjöll.

Hinn MS-greindi einstaklingur þarf að vera meðvitaður um að félagsleg einangrun gerir engum gott og getur aukið á einkenni. Hætta er á einmanakennd, sérstaklega ef einstaklingurinn þarf að hætta að vinna, ef fækkar í vinahópnum eða hann getur ekki lengur tekið þátt í félagsstarfi eins og áður. Oft er erfitt að koma sér af stað, annað hvort að eigin frumkvæði eða annarra, en þegar á hólminn er komið er sjaldnast hægt að sjá eftir því. Spurning er hvort rétt sé að huga að nýjum áhugamálum eða félagsstörfum sem hæfa getu.

saga

Margir MS-greindir kannast við að hafa heyrt sagt: „Leyfðu mér nú að gera þetta fyrir þig“ eða: „Ertu viss um að þú treystir þér til að...“ Mikilvægt er að einstaklingurinn láti fjölskyldu og vini vita hvar mörkin liggja þannig að gagnkvæmur skilningur ríki um hvort, hvenær eða við hvaða aðstæður aðstoðar er óskað. Það getur þó tekið fjölskyldu og vini einhvern tíma að aðlaga sig að þeim óskum því mörgum er eðlislægt að stökkva til hjálpar eða bjóða fram aðstoð, þó að einstaklingurinn sé fullfær um það sem hann er að gera eða ætlar sér.

Makar, börn og foreldrar eru oft spurð spurninga um líðan einstaklingsins. Barnið er til dæmis spurt: „Hvernig líður mömmu þinni?“ Barnið veit ekki alltaf hverju það á að svara og spyr því mömmu sína: „Mamma, það er alltaf verið að spyrja mig að því hvernig þú hafir það – hverju á ég að svara?“ Við þessu er ekki einhlítt svar en gott ef einstaklingurinn ákveður svar sem hann er tilbúinn að leyfa sínum nánustu að gefa þeim sem spyrja. Það gæti til dæmis verið: „Hún hefur það fínt!“ eða eitthvað annað sem ekki kallar á frekari spurningar. Einstaklingurinn ákveður svo sjálfur hverjum hann trúir fyrir einhverju meiru, ef hann kærir sig um.samskipti