Hvað er taugasálfræðileg skoðun?

Í taugasálfræðilegri skoðun er lagt mat á núverandi hugræna færni einstaklingsins ásamt mögulegri versnun sem byggir á fyrri hæfni hans. Slík skoðun felur í sér: 

  • Viðtal til að kynna tilgang skoðunar og að fara í gegnum félagslega færni einstaklingsins (psychosocial functioning), þ.e. menntun, atvinnu, áhugamál, fyrri sjúkdóma, lyfjanotkun og núverandi hugræn og líkamleg einkenni.  

  • Ýmis munnleg og skrifleg próf  eða verkefni sem mæla mismunandi hugræna starfsemi eins og athygli, minni, yfirsýn, lausn á verkefnum og þrautum o.s.frv.  

  • Kynning á niðurstöðum skoðunarinnar. 

Taugasálfræðileg skoðun tekur venjulega 2-3 klukkustundir. Oft er skoðun framkvæmd í tvígang vegna þess að margir verða þreyttir og hafa ekki orku fyrir svo langan tíma í einu. Eftir að skoðun er lokið er farið í gegnum niðurstöðurnar þar sem bæði styrkleikar einstaklingsins og veikleikar eru dregnir fram. Þá eru einnig lagðar fram tillögur og ábendingar sem hægt er að nota til að takast á við erfiðleika í daglegu lífi.  

Tilgangur skoðunarinnar er að draga fram tiltekna hugræna erfiðleika einstaklingsins en einnig að draga fram hugræna styrkleika hans. Með því að einstaklingurinn þekki eigin veikleika og styrkleika verður auðveldara að finna leiðir til að takast á við áskoranir í daglegu lífi. Niðurstaða skoðunarinnar eykur þannig skilning á hvaða hugrænu erfiðleika viðkomandi einstaklingur á við að stríða og hjálpar honum við að finna bestu leiðirnar til að takast á við einkennin.