Gott og hamingjuríkt líf er vel samrýmanlegt MS-sjúkdómnum. Það er áfall að greinast með langvinnan sjúkdóm en þó ekki endalokin. Fyrir marga er meira að segja léttir að fá loks nafn á einkenni sem stundum hafa varað í langan tíma. Sumir hugsa: „Þetta hljóta að vera mistök“ eða: „Af hverju ég?“ Fólk er yfirleitt í blóma lífsins við greiningu og óvissa því mikil um framtíðina, svo sem um nám, vinnu, fjárhag og stofnun fjölskyldu.

En hvað er MS? MS (multiple sclerosis) er langvinnur bólgusjúkdómur í miðtaugakerfinu (heila og mænu) þar sem ónæmiskerfið ræðst á mýelín, efnið sem myndar slíður utan um taugaþræði og ræður hraða og virkni taugaboða. Skilaboð um hreyfingu, tal eða hugsun truflast við það og ná illa eða ekki fram til tilætlaðra líkamshluta og einkenni sjúkdómsins koma fram.

MS er óútreiknanlegur sjúkdómur þar sem einkenni eru mjög misjöfn og geta lagst misþungt á einstaklinga. Einkenni geta verið bæði líkamleg og hugræn. Líkamleg einkenni eru flestum skiljanleg og njóta samúðar en annað gildir um hugrænar breytingar sem eru ósýnilegar og oft erfiðari að takast á við.

forsida

Margir hafa óljósa hugmynd um að MS tengist hjólastól á einhvern hátt. Sú var kannski raunin fyrr á tímum en með lyfjum sem hefta sjúkdómsvirkni og milda einkenni lifa mun fleiri góðu lífi með sjúkdómnum. Fjöldi MS-greindra hafa væg eða engin einkenni eftir mörg ár með sjúkdóminn og flestir lifa virku og sjálfstæðu lífi í mörg ár eftir greiningu.

Í bæklingnum ,,Daglegt líf með MS" er fjallað um þær áskoranir sem einstaklingar með MS, fjölskyldur þeirra og vinir geta mætt, sérstaklega ef sjúkdómurinn hefur orðið áhrif á daglegt líf þeirra.

Efni bæklingsins er þó engan veginn tæmandi og því getur verið nauðsynlegt að afla sér frekari upplýsinga og ráðgjafar, til dæmis hjá MS-félaginu eða á vefsíðu félagsins, msfelag.is, hjá taugalækni eða MS-hjúkrunarfræðingi.