Einstaklingur getur að hluta eða öllu leyti misst hæfileikann til að skilja þá stöðu sem hann er í vegna sjúkdómsins. Það getur verið erfitt fyrir fjölskyldu hans og vini að skilja að venjuleg rökhugsun og rökfærsla hefur ekkert að segja – ekki vegna þess að einstaklingurinn vill ekki skilja heldur vegna þess að hann er ófær um það.

Þegar rætt er við einstaklinginn undir fjögur augu getur stundum virst sem hann skilji aðstæðurnar en hann bregst þó ekki alltaf við í samræmi við það sem getur valdið ágreiningi. Þetta getur m.a. átt við þegar kemur að því að ræða viðkvæm og erfið málefni, t.d. er snerta öryggi við akstur eða notkun rafmagnshjólastóls.

Vegna þessa geta komið upp hættulegar aðstæður við athafnir daglegs lífs, m.a. við notkun á raftækjum eða við reykingar. Einnig getur einstaklingur í endurhæfingu verið með óraunhæfar væntingar til endurhæfingarinnar sem veldur ágreiningi við þá sem að endurhæfingunni standa.

Það er mikilvægt að starfsfólk og fjölskylda styðji við raunverulegar framfarir sem verða og séu hvetjandi en gæti þess að hvetja ekki til óraunhæfra væntinga.

Sölva fannst hann keyra bíl á ábyrgan hátt. Kona hans var honum ósammála og benti á nokkur atvik þar sem hefði getað farið illa. Hann lét sér það þó í léttu rúmi liggja og gerði grín að öllu saman. Hann varð reiður þegar kona hans reyndi að koma í veg fyrir að hann keyrði.

  • Ef sjúkdómsskynjun er að einhverju leyti enn til staðar er mögulegt að kenna einstaklingnum nýjar venjur með endurteknum áminningum og ákveðnum ráðleggingum eða fyrirmælum.
  • Upplýsingar og ráðgjöf auka skilning aðstandenda.
  • Gott er að einbeita sér að því sem einstaklingurinn getur og minna hann á takmarkanir hans á nærgætinn en ákveðinn hátt. Forðast skal að ýta undir og styðja óraunhæfar vonir og væntingar.
  • Ráðgjöf og leiðbeiningar frá utanaðkomandi aðila geta komið að gagni við að fá nýtt og hlutlaust mat á aðstæður.
  • Þegar um er að ræða sérlega viðkvæm málefni eins og t.d. akstur, getur verið gott að fá mat læknis eða annars fagaðila.