Um allan heim vinna vísindamenn að því að finna lausn á ráðgátunni um orsök og eðli MS og þróa lyf og meðferðir. MS er enn ólæknandi sjúkdómur en miklar framfarir hafa þó orðið í meðhöndlun sjúkdómsins á síðustu árum. Ný og kröftugri lyf eru komin fram sem gagnast þeim einstaklingum sem fá MS-köst. Lyfin bæði milda og seinka framgangi sjúkdómsins og hafa þau áhrif að köstum fækkar og einkenni þeirra verða vægari og vara skemur.

Mikil áhersla er nú lögð á að rannsaka hvað veldur versnun sjúkdómseinkenna án greinilegra kasta og á þróun nýrra lyfja eða meðferða sem gætu gagnast. Einnig er verið að rannsaka hvort eldri MS-lyf sem notuð eru við MS í köstum og lyf við öðrum sjúkdómum geti haft jákvæð áhrif.

Vonir standa til þess að senn verði mögulegt að halda sjúkdómnum alveg í skefjum, jafnvel að endurnýja skemmt mýelín og að einstaklingur endurheimti einhverja tapaða getu.

Hér í valstikunni til vinstri má lesa nánar um það ferli sem þarf að eiga sér stað þegar ný lyf eru rannsökuð, viðmiðunarmælikvarða og það ferli sem nýtt lyf þarf að ganga í gegnum eftir að rannsóknir hafa sýnt fram á virkni þess.

Ennfremur er hægt að nálgast allar fréttir um stofnfrumurannsóknir og stofnfrumuaðgerðir sem skrifað hefur verið um á MS-vefnum.