Sálfræðiráðgjöf og stuðningur

Mikilvægt er að viðurkenna orðinn hlut til þess að komast í gegnum hið daglega líf. Þegar takast þarf á við nýjar aðstæður getur verið gagnlegt að tala við sálfræðing sem hefur þekkingu á MS um hvernig best sé að takast á við greiningu eða versnun á sjúkdómseinkennum. Maki eða aðrir fjölskyldumeðlimir geta líka haft gagn af samtölum við sálfræðing.

Sálfræðingur getur hjálpað til við að koma reglu á ruglingslegar hugsanir og tilfinningar, komið þeim í orð og unnið úr þeim. Það er einnig gagnlegt að tala við hann um það sem einstaklingurinn mögulega óttast. Sálfræðiaðstoð og ráðgjöf getur hjálpað til við að ná tökum á aðstæðum á eðlilegan og jákvæðan hátt.

Það getur verið betra að leysa ekki öll vandamál í einu. Með því að vinna úr þeim smátt og smátt fæst betri yfirsýn og þau virðast ekki of mörg og óyfirstíganleg.

Markvissar aðferðir til að takast á við kvíða geta hjálpað einstaklingnum við að ná aftur stjórn á tilveru sinni. Ef hægt er að beina athyglinni frá því sem hann getur ekki til þess sem hann getur, gefur það einstaklingnum bæði styrk og stjórn á eigin lífi.

Hugræn atferlismeðferð (HAM) hefur reynst mörgum vel við að takast á við þunglyndi og kvíða sem eru algengir fylgikvillar MS. Af vefsíðu Reykjalundar er hægt að hlaða niður handbók og vinnubók í hugrænni atferlismeðferð. Hjá Reykjalundi er einnig hægt er að fá upplýsingar um HAM-námskeið.

Félagslegur stuðningur

Félagslegur stuðningur er mikilvægur því hann getur eflt sjálfsmyndina og sjálfstraustið. Hann er að finna víða t.d. hjá fjölskyldu, vinum, samstarfsmönnum eða í gegnum tómstundastarf.

Það er mikilvægt að halda í vini og félagsstarf sem hafa ekkert með sjúkdóminn að gera þar sem það hjálpar viðkomandi að muna að hann er líka vinur, vinnufélagi o.s.frv. en ekki bara einstaklingur með MS.

Sjálfshjálparhópar

Það getur verið hjálp í því að deila tilfinningum sínum með öðrum sem eru í sömu aðstæðum og maður sjálfur og sem skilja þær tilfinningar og líðan sem maður gengur í gegnum. Í hópi gefst einstaklingnum tækifæri til þess að segja frá tilfinningum sem hann er kannski ekki tilbúinn til að deila með fjölskyldu sinni. Eins getur hópur betur deilt reynslu sinni og þekkingu, bæði hvað varðar það að takast á við daglegt líf og hvernig best er að takast á við sjúkdóminn.

Nokkrir hópar einstaklinga með MS hafa myndað sjálfstæða hópa á fésbókinni um ýmislegt er tengist daglegu lífi með MS. Einnig hittast hópar einstaklinga með MS víða um land að jafnaði mánaðarlega yfir árið, ekki eingöngu til að tala um sjúkdóminn heldur einnig til að eiga skemmtilega stund saman. 

Lyf

Stundum geta tilfinningaviðbrögð sem einstaklingar upplifa vegna sjúkdóms síns verið svo yfirþyrmandi að það getur gagnast að taka lyf í stuttan tíma, t.d. vegna svefntruflana eða kvíðakasta. Lyf gagnast einnig við þunglyndi og hafa rannsóknir sýnt fram á að áhrifaríkasta meðferð þunglyndis er samhliða meðferð með þunglyndislyfjum og sálfræðiráðgjöf.

Þjónusta MS-félagsins

Boðið er upp á viðtal við félagsráðgjafa án endurgjalds. Hann býður meðal annars upp á einstaklings-, hjóna/para- og fjölskylduviðtöl. Einnig er hægt að óska eftir viðtali við fulltrúa úr viðtalshópi fræðslunefndar félagsins, sem í eru nokkrir einstaklingar sem hafa áralanga reynslu og víðtæka þekkingu á MS-sjúkdómnum.