skjálfti

Skerðing á samhæfðum hreyfingum á sér stað vegna bólgu í litla heila sem veldur truflunum á boðum frá heila til útstöðva þannig að stjórn og samhæfing fara ekki saman. Það veldur klunnahætti, óstöðugu göngulagi, skertum augn- og útlimahreyfingum og erfiðleikum með tal. Til dæmis getur verið erfitt að láta fingur hitta á nef með augun lokuð.

 

Einkenni geta verið væg en geta líka verið það mikil að einstaklingur er sem ölvaður. 

Í slæmum tilvikum getur einstaklingur verið þjakaður af skjálfta. Skjálfti getur komið fram í öllum líkamanum eða hluta hans. Einstaklingurinn getur t.d. átt í erfiðleikum með að halda á glasi eða viðhalda ákveðinni líkamsstöðu eins og að sitja. Einnig gæti viðkomandi átt erfitt með gang sem eykur fallhættu.

Stress, pirringur og kvíði eykur auðveldlega á einkennin.

 

Meðferð og góð ráð:

Erfitt getur verið að meðhöndla skerðingu á samhæfðum hreyfingum og skjálfta en ýmislegt er hægt að gera til að vinna á móti einkennum og áhrifum þeirra. 

  • Meðferð getur falið í sér æfingar til að byggja upp stöðugleika og styrkleika í vöðvum og finna leiðir til að draga úr áhrifum einkenna með endurhæfingu og aðlögun að breyttum aðstæðum.
  • Sjúkraþjálfarar geta greint vandann ásamt því að veita upplýsingar og gefa góð ráð um æfingar, líkamsstöðu og hjálpartæki. Jafnvægisæfingar eru árangursríkar en mikilvægt er að halda líkamlegum styrk eins og unnt er. Þjónusta sjúkraþjálfara fellur undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands, sjá hér.
  • Iðjuþjálfi getur gefið góð ráð 
  • Lyf hafa takmörkuð áhrif og geta aukaverkanir valdið (meira) máttleysi og aukið fallhættu.
  • Í stöku tilfellum geta botulinum-sprautur (botox) hjálpað.
  • Til eru ökklaspelkur til stuðnings, auk gönguhjálpartækja, s.s. göngustafir, hækjur eða göngugrindur. Einnig hjálpartæki til að setja upp á heimilum, eins og handföng, baðbekkir eða baðstólar, eða á vinnustað. Einnig smáhjálpartæki í eldhús og fyrir bað. Mörg þessara hjálpartækja eru niðurgreidd að hluta eða öllu leyti. Sjá upplýsingar um verslanir með hjálpartæki hér.
  • Hugænar æfingar geta þjálfað líkamlega færni, þ.m.t. jafnvægi:
    • Beindu hugsun þinni að því sem þú ætlar að gera – sjáðu fyrir þér hreyfinguna áður en þú framkvæmir hana.
    • Tölvuleikir og/eða sýndarveruleikaleikir geta hjálpað til við að þjálfa heilann og bæta jafnvægi. Sjá myndbönd til útskýringar hér  (spænskt tal en enskur texti) og hér.
    • Tónlist og taktmælar geta hjálpað til við ná upp jöfnum gönguhraða og bætt göngulag.
    • Léttar æfingar, eins og jóga, geta aukið styrk og jafnvægi og dregið úr þreytu.
  • Athugaðu hvort eitthvað í umhverfi þínu getur truflað göngu eða verið þér hættulegt, eins og lausar mottur og bleyta.
  • Einhverjir gætu þurft að íhuga að hætta að keyra bíl. Ferðaþjónusta stendur til boða í flestum tilfellum.
  • Flýttu þér hægt!

  

Talaðu um einkenni þín við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að eiga við ósamhæfðar hreyfingar og skjálfta að stríða. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.

 

Góð ráð frá MS-fólki:

  •  

 

Lumir þú á góðum ráðum um hvernig takast megi á við ósamhæfðar hreyfingar og skjálfta, endilega deildu þeim með öðrum með því að senda tölvupóst á netfangið msfelag@msfelag.is.

 

Fróðleiksmolar:

  • Styrktarþjálfun

Hjá Styrk, sjúkraþjálfun, miða æfingar að því að efla styrk, færni, jafnvægi og úthald. Þjálfunin fer fram í tveimur hópum sem miða við getu og færni einstaklinganna. Þjálfunin er þó einstaklingsmiðuð.

Mjög góð aðstaða er hjá Styrk, bæði til hópþjálfunar og æfinga í tækjasal. Öllum er frjálst að koma og taka prufutíma eða fylgjast með. Æfingarnar þykja mikil áskorun, einstaklega fjölbreyttar og skemmtilegar. Enginn tími er eins. Sjá nánar hér og myndir hér og hér