Hversu algeng eru hugræn einkenni hjá fólki með MS?

Ekki munu allir einstaklingar með MS finna fyrir skerðingu á hugrænni færni. Rannsóknir hafa sýnt fram á að á milli 45-60% MS-greindra eiga við einhvers konar hugræna erfiðleika að stríða en fyrir meirihluta þessa fólks eru einkennin væg. Það getur reynst erfitt að skilja og takast á við jafnvel vægar breytingar á hugrænni færni og getur slíkt valdið áhyggjum. Það hefur þó ekki eingöngu áhrif á einstaklinginn sem er með MS heldur geta fjölskylda og vinir fundið fyrir reiði og vonbrigðum og orðið áhyggjufullir og hræddir. Hugræn einkenni geta orsakað streitu og álag, bæði á heimilinu og á vinnustað. Að afla sér þekkingar um mögulegar breytingar á hugrænni færni vegna MS-sjúkdómsins getur auðveldað fólki að takast á við erfiðleikana ef þeir koma upp.

 

Hvaða hugræn einkenni tengjast MS?

Líkt og á við um önnur MS-einkenni eru hugræn einkenni í MS mjög einstaklingsbundin.hugraeneinkenni

Algengustu einkennin tengjast erfiðleikum með:

  • Nám og minni
  • Athygli og einbeitingu
  • Verkefnalausnir (áætlanagerð, framkvæmd og mat verkefna)
  • Úrvinnsluhraða
  • Orðaleit

Sjaldgæfari eru einkenni sem tengjast málskilningi og því að tjá sig á skiljanlegan hátt (e. aphasia), að vinna sjónrænt úr því sem fyrir augu ber (e. visual perception) og breytingar á fjarlægðarskyni, þ.e. að meta vegalengdir og staðsetningu hluta (e. spatial skills).

Nám og minni

Vandamál tengd minni eru m.a. erfiðleikar við að muna nýlega atburði, stefnumót eða verkefni. Sumir einstaklingar finna fyrir því að það tekur bæði lengri tíma og meiri orku að muna hluti eða atburði en áður var. Sem betur fer er oft hægt að læra einfalda minnistækni svo minniserfiðleikarnir hafi ekki veruleg áhrif.

Yfirleitt er ekki mikið vandamál fyrir fólk með MS að muna það sem það sér eða heyrir og tengt er ákveðnum minningum. Eins gleymist sjaldan það sem hefur lærst eins og hvernig á að hjóla. Sama má segja um það sem kalla má almenna vitneskju eða að muna atburði aftur í tímann. 

Athygli, einbeiting og úrvinnsluhraði

Sumum MS-greindum finnst erfitt að einbeita sér í langan tíma í einu og sumir eiga í erfiðleikum með að muna hvað þeir eru að gera eða segja ef þeir eru truflaðir í miðju verkefni. Það getur líka verið erfiðara fyrir þá að gera fleiri en einn hlut í einu eða taka þátt í samræðum á meðan til dæmis útvarp eða sjónvarp er í gangi. Margir lýsa þeirri tilfinningu að þeim finnst þeir ekki bregðast eins hratt við og áður, þ.e. þeir geta gert sömu hluti og áður en það tekur þá lengri tíma og krefst meiri vinnu. Niðurstöður rannsókna benda til þess að vinnsla upplýsinga geti tekið lengri tíma hjá fólki með MS en hjá heilbrigðum einstaklingum.

Að leysa verkefni (áætlanagerð, framkvæmd og mat verkefna)

Fyrir MS-greindan einstakling getur verið erfitt að skipuleggja og leysa verkefni og þrautir. Hann veit að hann þarf að leysa eitthvað ákveðið verkefni en veit ekki hvernig best er að byrja eða í hvaða röð best sé að hafa hlutina. Þá verður því miður oft þægilegast að sleppa því að vinna verkefnið. Erfiðleikar við að undirbúa, skipuleggja og hafa yfirsýn geta ruglað einstaklinginn og valdið honum streitu sem getur haft neikvæð áhrif á minni og lærdóm.

Orðaleit

Fólk með MS getur átt í erfiðleikum með að finna viðeigandi orð þegar á þarf að halda. Þetta getur valdið fólki erfiðleikum í samræðum eða við þátttöku í umræðum þegar lengri tíma tekur að láta í ljós skoðun sína, leita eftir rétta orðinu eða umorða setninguna – og á meðan eru aðrir komnir langt á undan í samræðunum. Þetta getur haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd viðkomandi og samskipti hans við annað fólk.

 

Ef þú átt við hugræna erfiðleika að stríða þýðir það ekki endilega að þú munir upplifa öll þau einkenni sem lýst hefur verið hér að framan. Einkenni og alvarleiki breytinganna er mjög einstaklingsbundinn og þá einnig hvernig og að hve miklu leyti einkennin hafa áhrif á daglegt líf.

 

Geta hugræn einkenni versnað?

Ekki er hægt að segja fyrir um hvernig breytingar á hugrænni færni einstaklings þróast með tímanum. Yfirleitt eru einkenni ekki mikil. Rannsóknir hafa þó sýnt að einhver hætta er á því að hugrænir erfiðleikar aukist eftir því sem líður á. Versnunin er þó yfirleitt hægfara sem þýðir að hægt er að þróa aðferðir til að takast á við einkennin.

Þar sem hugræn einkenni geta versnað getur verið gagnlegt að gangast undir taugasálfræðilega skoðun, jafnvel þó einkenni séu væg. Þegar einkennin eru væg og ekki mörg er auðveldara að finna lausnamiðaðar aðferðir og aðgerðir til að einstaklingurinn finni sem minnst fyrir einkennunum. Þar með er hann betur í stakk búinn ef hugræn einkenni hans versna síðar meir.

Er hægt að segja fyrir um hugræn einkenni í MS?

Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á fylgni milli hugrænna og líkamlegra einkenna í MS, hversu lengi einkennin vara eða alvarleika þeirra. Því er erfitt að segja fyrir um hvernig hugræn einkenni þróast hjá einstaklingum en þau geta komið fyrir hjá nýgreindum jafnt og fólki sem hefur haft MS í áraraðir. Einstaklingur með MS getur haft alvarleg hugræn einkenni en engin eða aðeins lítilsháttar líkamleg einkenni. Hann getur líka haft væg eða engin hugræn einkenni en mikil líkamleg einkenni.

Fólk sem þekkir ekki til MS-sjúkdómsins tengir ranglega saman líkamleg og hugræn einkenni með því að túlka sýnileg líkamleg einkenni MS-einstaklings sem svo að „eitthvað sé ekki í lagi“ með getu hans til að hugsa skýrt. Líkamlegu einkennin geta verið talerfiðleikar, það að vera lengi að tjá sig eða vera óskýr í tali (dysarthria) og/eða að eiga í erfiðleikum með að stjórna hreyfingum (ataxia) þannig að einstaklingurinn virðist ráðvilltur. Aðrir geta átt í erfiðleikum með að stjórna augnhreyfingum (nystagmus) og geta þá til dæmis ekki haldið augunum föstum á þeim sem talað er við.

Þar sem erfitt er að sjá fyrir um hugrænu einkennin sem tengjast MS-sjúkdómnum er mikilvægt að vera meðvitaður um öll einkenni, jafnvel þau vægustu, og reyna að takast á við þau eða meðhöndla og finna lausnir sem geta lagað ástandið. Vitneskjan um og óttinn við að fá hugræn einkenni geta leitt til aukinnar vitundar um minniháttar gleymsku. Það getur hent alla að gleyma en fólk með MS gæti hins vegar túlkað gleymsku sem hugræn einkenni. Spurningin er aðeins hvort gleymskan sé meira áberandi en áður og hafi áhrif á daglegt líf.