Breytingar á persónuleika og háttalagi

MS-sjúkdómurinn hefur breytileg áhrif. Sumir upplifa fá og léttvæg einkenni á meðan aðrir glíma við alvarlegri einkenni. Stundum er erfitt að átta sig á því hvort einkenni tengist MS eða eigi sér aðrar orsakir.

Tiltölulega auðvelt er að koma auga á og skilja líkamleg einkenni MS. Auk þess átta flestir sig á ýmsum sálrænum einkennum svo sem þeim að einstaklingur með MS getur verið leiður, hræddur eða óöruggur vegna greiningarinnar, vegna núverandi einkenna eða vegna óvissu um framtíðina.

Svo eru önnur einkenni sem erfiðara er að gera sér grein fyrir og minna er talað um. Það eru þær breytingar sem orðið geta á háttalagi og persónuleika. Eins og með önnur MS-einkenni, upplifa ekki allir þessar breytingar og enginn fær öll einkennin. Breytingar á háttalagi og persónuleika geta líka átt sér allt aðrar orsakir en MS-sjúkdóminn.

Breytingar á persónuleika og háttalagi geta komið og farið, varað í styttri eða lengri tíma og stundum orðið varanlegar. Þær geta verið svo vægar að aðeins einstaklingurinn sjálfur finnur fyrir þeim á sama hátt og þær geta verið sjáanlegar öðrum en án þess þó að einstaklingnum sjálfum finnist þær vera vandamál.

Flestum reynist erfitt að takast á við og ræða við aðra um breytingar á persónuleika sínum og háttalagi. Þegar ekki er talað um einkenni sjúkdómsins eða þau eru á einhvern hátt óskiljanleg er hætt við að einstaklingurinn finni sínar eigin skýringar á breytingunum og jafnvel ofmeti þær.