Barneignir

Ekkert mælir gegn því að skipuleggja framtíðina og barneignir þó annar aðilinn hafi greinst með MS. MS er ekki skilgreindur sem erfðasjúkdómur þó um 2-5% líkur séu taldar á að náin skyldmenni fái MS. Hins vegar þarf að skipuleggja barneignir í tíma sé væntanlegt foreldri á MS-lyfi. Best er að fá upplýsingar hjá taugalækni eða MS-hjúkrunarfræðingi um hversu lengi er ráðlagt að vera án lyfja áður en barneignir eru reyndar og fyrir konur hvenær þær byrji að taka aftur lyf eftir barnsburð. Brjóstagjöf er ekki ráðlögð samfara lyfjameðferð. 

Þó MS hafi yfirleitt ekki áhrif á meðgöngu eða fæðingu er nauðsynlegt að láta ljósmóður, hjúkrunarfræðing eða lækni vita um sjúkdóminn verði kona með MS þunguð. Einnig skal ávallt láta þessa aðila vita ef grunur er um MS-kast á meðgöngu þó ekki sé talið að það hafi áhrif á fóstrið.   

Sjálf meðgangan er flestum konum með MS ekki erfiðari en öðrum. Þær geta fengið dæmigerð MS-einkenni á meðgöngunni sem eiga sér hins vegar upptök í sjálfri meðgöngunni eins og aðrar barnshafandi konur. Dæmi um slíkt er þreyta, hitasveiflur, svefnerfiðleikar og þvagblöðruvandamál.  

Rannsóknir hafa sýnt að ófrískar konur með MS upplifa færri köst en vanalega, sérstaklega á síðasta þriðjungi meðgöngunnar. Fyrstu mánuði eftir fæðingu geta köstin hins vegar aukist aftur en allt er þetta þó mjög einstaklingsbundið.  

Gott er að eiga skilningsríkan maka og aðstandendur þannig að umönnun barnsins valdi sem minnstu álagi.