Ástæðulaust er að ætla annað en að hægt sé að lifa góðu og hamingjuríku lífi þrátt fyrir að hafa MS í farteskinu, sérstaklega eftir tilkomu lyfja sem draga úr sjúkdómsvirkni hjá meginþorra MS-greindra. Heilbrigður lífstíll getur gert gæfumuninn; virkni í daglegu lífi, hreyfing, þjálfun, endurnærandi svefn, fjölbreytt mataræði, reykleysi og hófleg áfengisnotkun.

Fyrir nýgreinda einstaklinga getur verið mikil áskorun að læra inn á sjálfan sig og einkenni sjúkdómsins. Ástæðulaust er að fyllast örvæntingu og kollvarpa öllum framtíðarplönum. Með tímanum lærist að þekkja á einkennin og takast á við köstin, jafnvel að gera ráðstafanir til að draga úr einkennum.

Nýgreindir með MS og fjölskyldur þeirra sem þekkja ekki mikið til sjúkdómsins hafa tilhneigingu til að bera hinn nýgreinda saman við aðra einstaklinga með MS sem þeir vita um eða sjá til, sérstaklega ef þeir aðilar búa við einhverja skerðingu vegna sjúkdómsins. Hafa skal í huga að sjúkdómurinn er mjög einstaklingsbundinn og samanburður því óraunhæfur auk þess sem tiltölulega stutt er síðan kröftug lyf komu á markað. Fleiri lyf og meðferðarúrræði munu bætast við á komandi árum.

Best er að fræðast um sjúkdóminn og fá nauðsynlegan stuðning. Hægt er að fá ráðleggingar og upplýsingar hjá læknum, hjúkrunarfræðingum og öðrum sérfræðingum innan heilbrigðiskerfisins. Að auki býður MS-félagið upp á ýmiskonar þjónustu og ráðgjöf

Á veraldarvefnum er mikið af misáreiðanlegum upplýsingum og því mikilvægt að skilja á milli þess sem telst til nýjunga eða almennt viðurkenndrar þekkingar og þess sem er það ekki. Vefsíða MS-félagsins inniheldur aðeins upplýsingar og efni frá traustum aðilum og tenglasafnið vísar á vefsíður sem birta aðeins traustar upplýsingar um sjúkdóminn og annað sem tengist honum.

Heimilislæknir getur oft leyst úr mörgum vandamálum einstaklinga með MS og getur verið tengiliður við taugalækni og heilbrigðisstofnanir. Það má ekki gleyma því að ekki er hægt að skrifa allt á MS-reikninginn heldur geta einstaklingar með MS fengið önnur heilsufarsvandamál.

Upplýsingar og fræðsla eyða fordómum og auka skilning. Tilvalið er að fá lítil kynningarkort hjá MS-félaginu, sem hafa að geyma allra helstu upplýsingar um MS-sjúkdóminn, til að dreifa meðal fjölskyldu og vina eða koma fræðslubæklingi í hendur þeirra sem hugsanlega þurfa á því að halda.

mssociety