Verða breytingar á hugrænni færni í MS?

Margir þættir geta haft áhrif á hugræna færni. Hugrænar breytingar geta verið bæði tímabundnar og varanlegar. Í mörg ár var litið svo á að breytingar á hugrænni færni væru sjaldgæf MS-einkenni. Hins vegar hafa umfangsmiklar rannsóknir leitt í ljós að þær eru mun algengari en áður var talið.

Hugræn færni er háð taugaboðum í heila. Truflun á þeim, eins og verður í MS, getur valdið erfiðleikum með athygli og einbeitingu, minni, nám og fleiri hugræna þætti.

Þessir erfiðleikar fara eftir umfangi MS-skemmda í heila og geta í sumum tilfellum verið varanlegir.

Aðrir þættir svo sem þunglyndi, streita, verkir og MS-köst geta leitt til tímabundinna hugrænna einkenna.

 

Þreyta og máttleysi

Mörgum einstaklingum með MS finnst hugræn og líkamleg einkenni versna við þreytu. Þegar þreytan hellist yfir verður erfitt að einbeita sér eða læra eitthvað nýtt. Þegar þreytan er að baki verður hugræna starfsemin aftur eðlileg.

Þunglyndi, kvíði og streita

Alvarleg áföll eða breytt lífsskilyrði, hvort sem þau stafa af sjúkdómi eða ekki, geta haft áhrif á skaplyndi og líðan. Depurð og þunglyndi geta valdið einbeitingarskorti og minnistruflunum. Við betri líðan dregur úr þessum einkennum. Kvíði og streita geta haft sambærileg áhrif.

MS-köst

Hugræn einkenni geta komið fram eða versnað í MS-kasti. Í MS-kasti myndast bólga í miðtaugakerfinu sem dregur úr getu taugabrauta til að senda og taka á móti skilaboðum. Þegar bólgan minnkar við það að MS-kastið gengur til baka dregur úr einkennum kastsins eða þau hverfa alveg.

Líkamlegar takmarkanir

Flestir þurfa ekki að hugsa um hvernig þeir hreyfa sig eða framkvæma hreyfingar. Líkaminn er yfirleitt stilltur á „sjálfstýringu“. Hugurinn hefur því möguleika á að einbeita sér að öðrum hlutum samhliða hreyfingu. Fólk með MS verður hins vegar stundum að beita hugrænni getu í þágu líkamlegrar beitingar ef það þarf að einbeita sér að því að færa fæturna fram við gang. Þá getur það síður einbeitt sér að öðru samtímis eins og að halda uppi samræðum eða taka eftir umhverfi sínu.

Breytingar á lífsstíl

MS getur valdið því að sumir einstaklingar með MS hætta að sækja í félagsstarf sem áður gaf þeim orku og innblástur. Aðrir verða að draga úr vinnu eða hætta að vinna og/eða geta ekki lengur tekið fullan þátt í heimilisstörfum. Það getur leitt til aukinnar félagslegrar einangrunar og valdið því að dag- og tímasetningar hafa minna vægi en áður og viðburðir gleymast.

Lyf og áfengi

Lyf sem hafa áhrif á miðtaugakerfið, t.d. róandi töflur, svefntöflur og verkjalyf, geta dregið úr hugrænni færni. Áfengi og vímuefni geta einnig haft neikvæð áhrif.