Tegund meðferðar

Fyrsta-meðferðar lyf til meðferðar á MS í köstum. 

Hve oft gefið

Ein áfyllt sprauta, 20 mg af glatíramerasetati, gefið með inndælingu undir húð einu sinni á sólarhring. 

Geymsla lyfs

Geymið áfylltu sprauturnar í ytri umbúðunum til varnar gegn ljósi. Geymið í kæli (2°C - 8°C). Má ekki frjósa. Ef ekki er hægt að geyma áfylltu sprauturnar í kæli má geyma þær við stofuhita (15°C til 25°C) í eitt skipti í allt að einn mánuð. Ef glatíramerasetat í áfylltum sprautum hafa ekki verið notaðar eftir þennan tíma og sprauturnar eru enn í upprunalegum umbúðum verður að setja þær aftur í kæli (2°C til 8°C).

Virkni

Virkni lyfsins er samsvarandi virkni interferon-lyfja, þ.e. köstum fækkar um þriðjung.

Í rannsóknum var sýnt fram á betri verkun glatíramerasetats en lyfleysu á breytingar sem greindar eru með segulómun en lyfið virðist hins vegar ekki hafa gagnleg áhrif á framvindu fötlunar.

Verkun

Ekki er að fullu ljóst með hvaða hætti virka efni Remurel, glatíramerasetat, verkar á MS-sjúklinga. Hins vegar er talið að það verki með því að draga úr ónæmisferlum sem nú er álitið að séu valdir að meingerð MS. 

Aukaverkanir

Algengustu aukaverkanirnar eru viðbrögð á stungustað, svo sem hörundsroði, verkur, þykkildi, kláði, bjúgur, bólga og ofnæmi, og mjög sjaldgæfum tilvikum var greint frá fiturýrnun og húðdrepi. Aukaverkunum sem tengjast a.m.k. einu eða fleiri eftirfarandi einkenna hefur verið lýst skömmu eftir inndælingu: æðavíkkun (húðroði), brjóstverkur, mæði, hjartsláttarónot eða hraður hjartsláttur. Þessar aukaverkanir geta komið fram innan nokkurra mínútna frá inndælingu lyfsins. Flest þessara einkenna vara stutt og lagast af sjálfu sér án þess að hafa neinar afleiðingar í för með sér.

Athugið að það geta enn komið fram óþekktar og alvarlegar aukaverkanir þar sem um tiltölulega nýtt lyf er að ræða.

Frábending

Engin sérstök.

Eftirlit

Gæta skal varúðar þegar lyfið er gefið sjúklingum sem eru með hjartasjúkdóma. Fylgjast á reglulega með þessum sjúklingum meðan á meðferð stendur. Fylgjast á með nýrnastarfsemi hjá sjúklingum með skerta nýrnastarfsemi á meðan þeir eru meðhöndlaðir með glatíramerasetati.

Bitími ef skipta þarf um lyf

Í samráði við lækni, en að jafnaði þurfa að líða allt að 3 mánuðir sé um Tysabri eða Gileyna að ræða. 

Markaðssett á Íslandi

Frá 2017 á Íslandi. 

Öryggiskort

Læknir eða hjúkrunarfræðingur mun afhenda sjúklingi fræðslukort um Remurel sem nauðsynlegt er að kynna sér vel, hafa alltaf á sér og framvísa við allar læknisheimsóknir, í allt að 6 mánuði eftir að meðferð lýkur.

Nánari upplýsingar um lyfið

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins, uppfært 25.07.2017, sjá hér

Samantekt á eiginleikum Remurel (EMA/Lyfjastofnun),, uppfært 25.07.2017, sjá hér 

Annað

Sjúklingar á ónæmisbælandi MS-lyfjum mega fá bóluefni sem eru ekki lifandi (á við flensusprautuna). Bólusetning með lifandi bóluefnum er ekki æskileg meðan á meðferð stendur og í allt að 4-6 mánuði eftir að meðferð lýkur. Spyrjið alltaf heilbrigðisstarfsmann fyrir bólusetningu hvort bóluefnið sé lifandi eða ekki.

 

BB/október 2017