Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Fyrsta-meðferðar lyf, skylt interferonlyfjum sem nú eru á markaði. Plegridy er ætlað til meðferðar á MS í köstum.
Plegridy er sprautað undir húð með lyfjapenna á 14 daga fresti.
Plegridy kemur í einnota fylltum lyfjapennum í þremur mismunandi styrkleikum; 63, 94 eða 125 µg. Meðferðin byrjar með styrkleika 63 µg í lyfjapennanum, næsta lyfjaskot, tveimur vikum síðar, inniheldur styrkleikann 94 µg og tveimur vikum síðar inniheldur lyfjapenninn 125 µg sem er hámarksskammtur og er notaður á 14 daga fresti eftir það. Sprautað er undir húð í maga, í upphandlegg eða í læri.
Plegridy má geyma við stofuhita (allt að 25°C) í allt að 30 daga ef það er geymt varið ljósi. Ef Plegridy hefur verið geymt við stofuhita í samtals 30 daga skal það notað eða því fleygt. Ef ekki er vitað hvort Plegridy hafi verið geymt við stofuhita í 30 daga eða lengur, skal því fleygt.
Geymið í kæli (2°C - 8°C). Má ekki frjósa. Geymið í upprunalegum umbúðum til varnar gegn ljósi.
Plegridy fækkar MS-köstum um 30% og hægir á versnandi fötlun.
Ekki að fullu ljóst hvernig virka efnið peginterferon beta-1a virkar á MS-sjúkdóminn en það virðist þó dempa ónæmiskerfið og draga úr eða koma í veg fyrir skaða í miðtaugakerfinu.
Algengustu aukaverkanir Plegridy (koma fyrir hjá allt að einum af hverjum 10 einstaklingum) er höfuðverkur, vöðvaverkir, liðverkir, inflúensulík einkenni, hiti, kuldahrollur, slappleiki, roði í húð og verkir eða kláði á stungustað.
Alvarlegri aukaverkanir geta verið lifrabólga og alvarlegt þunglyndi.
Lista yfir aukaverkanir m.m. má fá í lyfjakorti (öryggisupplýsingar um lyf) sem afhent er sjúklingi við fyrstu lyfjagjöf eða á vefsíðu Plegridy, sjá hér neðar.
Ófrískar konur eða konur með börn á brjósti mega ekki vera á lyfinu. Heldur ekki fólk sem á við alvarlegt þunglyndi að stríða.
Tekið í notkun 2016.
Læknir eða hjúkrunarfræðingur mun afhenda sjúklingi öryggiskort um Plegridy sem nauðsynlegt er að kynna sér vel, hafa ávallt á sér og framvísa við allar læknisheimsóknir.
Samantekt á eiginleikum Plegridy (EMA/Lyfjastofnun), uppfært (ódagsett), sjá hér
Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins, uppfært (ódagsett), sjá hér (bls. 108-122)
Umsagnir EMA, lyfjastofnunar Evrópu, uppfært 02.08.2017, sjá hér
Sérstakt eftirlit, sjá hér
Sjúklingar á Plegridy mega fá bóluefni sem eru ekki lifandi (á við flensusprautuna). Bólusetning með lifandi bóluefnum er ekki æskileg meðan á meðferð stendur og í allt að 4 mánuði eftir að meðferð lýkur. Spyrjið alltaf heilbrigðisstarfsmann fyrir bólusetningu hvort bóluefnið sé lifandi eða ekki.
Ástæðan fyrir því að ekki þarf að sprauta sig jafn oft með Plegridy eins og með eldri interferon-lyfjum er að búið er að binda interferonið í Plegridy með ákveðnu kemísku efni, polyethylenglycol, sem gerir að virka efni Plegridy leysist upp hægar í líkamanum en betaferonlyfin sem fyrir eru.
BB/október 2017