Forsíða bæklings

Þreyta

Þreyta er eitt af algengustu, mest truflandi einkennunum sem fólk með MS upplifir. Fyrir suma er þreyta það einkenni sem er mest truflandi.

Það er ekki aðeins erfitt að skilgreina MS þreytu heldur er hún ósýnilegt einkenni (þ.e.a.s. aðrir geta ekki séð hana). Það gerir fólki erfitt um vik að skilja hana eða útskýra fyrir öðrum, sem geta túlkað hana á rangan hátt. Henni er oft lýst sem þungri þreytu (þróttleysi), almennu máttleysi eða skorti á orku en sumir geta lýst henni sem algjörri örmögnun.

Raunveruleikinn er sá að sérhver skilgreining er rétt vegna þess að upplifunin er huglæg og allir upplifa MS þreytu á mismunandi hátt.

Til að fræðast frekar um MS þreytu getur þú hlaðið niður bæklingnum Þreyta: ósýnilegt einkenni MS og haldið áfram að lesa hér fyrir neðan. Í bæklingnum er fullt af góðum ráðum til að stjórna MS þreytu MS, þ.m.t. hlekkir á æfingar sem þú getur gert heima og eyðublöð fyrir þreytudagbók. Bæklingurinn var gefinn 2020 af alþjóðasamtökum MS félaga, MSIF en þýddur af MS-félagi Íslands.

Hvað veldur MS þreytu?

Orsakir MS þreytu eru enn ekki vel þekktar. Talið er að hún stafi af ýmsum mismunandi þáttum, að hluta til af völdum sjúkdómsins (frumþreyta) og að hluta til af öðrum þáttum (afleidd þreyta).

MS-frumþreyta stafar af breytingum í heila og skemmdum á miðtaugakerfinu. Skemmdirnar hafa áhrif á taugarnar með því að trufla boð frá heila og mænu til annara staða í líkamanum. Fyrir vikið þarf líkami þinn að erfiða meira, sem getur leitt til MS þreytu. Vöðvaslappleiki og hugrænar kröfur verða einnig fyrir áhrifum breytinga á heila, sem leiðir til meiri notkunar á orku, sem aftur getur leitt til MS þreytu.

Afleidd MS þreyta kemur fram vegna áhrifa af því að vera með MS. Til dæmis geta MS einkenni eins og þunglyndi, verkir eða svefntruflanir vegna krampa (spasma) eða lausheldni (þvagleka) gert MS þreytuna verri. MS þreyta getur einnig komið fram sem aukaverkun sumra lyfja eða vegna hreyfingarleysis, streitu, lélegs mataræðis eða sýkinga. Aðrar læknisfræðilegar aðstæður geta einnig valdið MS þreytu eða gert hana verri.

 

Hvernig er MS þreyta frábrugðin venjulegri þreytu?

MS þreyta er meira en venjuleg þreyta sem allir finna fyrir eftir áreynslu eða lélegan nætursvefn. Venjuleg þreyta getur samt haft áhrif á þig, en MS þreyta hefur mun meiri áhrif.

MS þreyta getur verið líkamleg og andleg; hún dregur úr þér orku á augabragði og getur hindrað þig í daglegu lífi. MS þreyta getur verið
mjög lamandi og ólíkt „venjulegri“ þreytu getur það tekið langan tíma að ná sér.

MS þreyta er oft yfirþyrmandi. Hún getur komið hvenær sem er án fyrirvara eða nokkurrar augljósrar ástæðu. Sumir segjast upplifa MS þreytu eftir athafnir eins og að skrifa eða lesa og þeir þurfa að hvíla sig strax. Aðrir segja að MS þreyta komi eftir líkamlega áreynslu, svo sem að fara með hundinn í göngutúr eða versla. Hjá enn öðrum getur MS þreyta komið eftir hugræna áreynslu eins og að vinna í tölvunni og klára andlega krefjandi verkefni. Þú gætir líka fundið fyrir MS þreytu þegar þú vaknar, í sumum tilvikum á hverjum degi, jafnvel eftir góðan nætursvefn.

 

Hvernig hægt er að lýsa MS þreytu fyrir öðrum

Það getur verið flókið að lýsa MS þreytunni fyrir vinum, fjölskyldu, samstarfsmönnum og heilbrigðisstarfsfólki, en það getur gert daglegt líf með MS þreytu bærilegra að hjálpa öðrum að öðlast betri skilning.

Stundum geta vinir og fjölskylda tekið eftir áhrifum MS þreytunnar. Til dæmis gæti ættingi tekið eftir því að þú gengur hægar eftir því sem líður á daginn, eða að eftir að hafa lokið ákveðnum verkefnum verða öll samtöl hægari. Að sjá áhrif þreytunnar getur leitt til þess að fólkið í kringum þig býður frekar fram aðstoð og stuðning.

Það munu koma tímar þar sem MS þreytan er ekki augljós öðrum vegna þess að hún er „ósýnilegt“ einkenni. Notkun dæmaeða myndlíkinga til að lýsa MS þreytu getur hjálpað vinum, fjölskyldu og samstarfsmönnum að skilja og tengjast því sem þú ert að upplifa.

 

  

 

 

Bæklingur um þreytu - íslensk þýðing

Bæklingur um þreytu - ensk útgáfa

Eyðublöð fyrir þreytudagbók - íslensk þýðing

Eyðublöð fyrir þreytudagbók - ensk útgáfa