Svimi 

Svimi er algengt MS-einkenni og getur tengst kasti en einnig verið viðvarandi einkenni. Svimi stafar af taugaskaða á svæðum sem samræma skynjun og viðbrögð við upplýsingum sem einstaklingurinn fær frá augum og útlimum um líkamsstöðu sína.

 

Svimi getur valdið óstöðugleika, fallhættu og ógleði. 

Rétt er að hafa í huga að svimi er algengt einkenni meðal fólks og getur því orsakast af mörgu öðru en MS.

 

Meðferð og góð ráð:

Þegar svimi eða jafnvægisleysi er viðvarandi getur sjúkraþjálfari lagt hönd á plóg með styrktar- og jafnvægisæfingum auk þess að gefa ráð með líkamsstöðu. Stuðningshjálpartæki koma að gagni ef fólki hættir til að hrasa eða detta.

  • Heimilislæknar geta greint vandann og ráðlagt um meðferð eða úrlausn.
  • Sjúkraþjálfarar geta veitt upplýsingar og gefið góð ráð um æfingar, líkamsstöðu og hjálpartæki. Jafnvægisæfingar eru árangursríkar. Þjónusta sjúkraþjálfara fellur undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands, sjá hér.
  • Til eru hjálpartæki s.s. göngustafir, hækjur eða göngugrindur til að minnka fallhættu. Einnig hjálpartæki til að setja upp á heimilum, eins og handföng, baðbekkir eða baðstólar, eða á vinnustað. Sjá upplýsingar um verslanir með hjálpartæki hér.
  • Athugaðu hvort eitthvað í umhverfi þínu getur truflað göngu eða verið þér hættulegt, eins og lausar mottur og bleyta.
  • Flýttu þér hægt!

 

Talaðu um einkenni þín við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að fá svimaköst. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.

 

Góð ráð frá MS-fólki:

  •  

 

Lumir þú á góðum ráðum um hvernig takast megi á við svimaköst, endilega deildu þeim með öðrum með því að senda tölvupóst á netfangið msfelag@msfelag.is.

 

Fróðleiksmolar:

·       Styrktarþjálfun

Hjá Styrk, sjúkraþjálfun, Höfðabakka 9, miða æfingar að því að efla styrk, færni, jafnvægi og úthald. Þjálfunin fer fram í tveimur hópum sem miða við getu og færni einstaklinganna. Þjálfunin er þó einstaklingsmiðuð.

Mjög góð aðstaða er hjá Styrk, bæði til hópþjálfunar og æfinga í tækjasal. Öllum er frjálst að koma og taka prufutíma eða fylgjast með. Æfingarnar þykja mikil áskorun, einstaklega fjölbreyttar og skemmtilegar. Enginn tími er eins. Sjá nánar hér og myndir hér og hér

 

 

Mynd