Ósýnileg einkenni MS (Invisible Symptoms of MS)

MS-félagið í Ástralíu, MS Australia, gaf út myndband um hin ósýnilegu einkenni MS í tilefni af alþjóðadegi MS, 30. maí. Myndbandið er með íslenskum undirtexta.

Í myndbandinu, sem er um 2 mínútur að lengd, talar Sonia, kona með MS, við okkur um hin margvíslegu ósýnilegu MS-einkenni. Mörg einkenni MS-sjúkdómsins eru ósýnileg eða vekja ekki athygli, og mætir hinn MS-greindi því ýmsum fordómum frá samfélaginu, m.a. frá fjölskyldu, vinum og vinnufélögum, sem byggja á vanþekkingu og/eða skilningsleysi.

Fræðsla eykur skilning og er myndbandinu ætlað að auka skilning fólks á nokkrum þeim áskorunum sem MS-greindir mæta í daglegu lífi. Myndbandið var framleitt í nánu samráði við fólk með MS, og eru þeirra eigin orð notuð í myndinni.   

Framleiðandi myndbands: Mark Campell, framkvæmdastjóri starfrænnar miðlunar MS Australia

Íslenskur undirtexti: Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi MS-félagsins

Slóð á myndbandið á YouTube er hér

(til að fá upp íslenskan undirtexta, veldu stillingar hnappinn neðst hægra megin á myndskjánum, þar undir skjátextar og að lokum íslenska.)

 

 

Lifað með MS: Flott myndband með Láru Björk Bender

 MS-félag Íslands fékk kynningarmyndband að gjöf frá Öryrkjabandalagi Íslands í maí 2017, í tilefni af 55 ára afmæli bandalagsins.

 „Maður þarf bara að vera jákvæður og líta á björtu hliðarnar“

Myyndband

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Skjáskot af Láru Björk Bender á YouTube

Í myndbandinu segir ung kona, Lára Björk Bender, varamaður í stjórn MS-félagsins, frá lífi sínu með sjúkdóminn. Hvernig henni leið fyrst eftir greiningu og hvernig hún tókst á við daglegt líf í kjölfarið.

Lára fór fljótlega að stunda polefitness, sem reynir ekkert smá á styrk einstaklingsins, og segist aldrei hafa verið sterkari og hraustari heldur en hún er í dag, þrátt fyrir að vera með MS-sjúkdóminn á bakinu. Hún er nú þjálfari hjá Eríal Pole en er einnig í fullu starfi á þjónustusviði Orkuveitu Reykjavíkur.

Lára segir að hreyfing og mataræði skipti öllu máli. Það lækni ekki sjúkdóminn en hjálpi til og haldi okkur gangandi.

 

Myndbandið á YouTube

Myndbandið sýnir frábæra og flotta unga konu sem tekst á við erfiða greiningu með jákvæðu hugarfari og styrk.

Myndbandið var frumsýnt á alþjóðadegi MS, 31. maí 2017 og má nálgast hér.

 

 

Norræna myndbandið: My Dream is Alive

mydreamStuttmyndin ,,My dream is alive" er samstarfsverkefni ungra fulltrúa í Norræna MS ráðinu, NMSR og gefur innsýn í líf ungs fólks með MS.

Verkefnið var stutt af Nordisk kulturfund og Norrænu ráði MS-félaga, en verkefnastjóri var Helga Kolbeinsdóttir, starfsmaður MS-félagsins og ritari NMSR. Myndin var  frumsýnd í nóvember 2017.

Markmiðið með gerð myndarinnar var að gefa raunsæja mynd af því hvernig það er fyrir ungt fólk að greinast og lifa með MS í dag. Unga fólkið vildi gera mynd sem þau hefðu sjálf viljað sjá þegar þau fengu sína greiningu. Með myndinni vildu þau auka þekkingu og skilning á MS, gefa ungu fólki með MS von og sýna þeim að þau eru ekki ein.

Þátttakendur í myndinni er ungt fólk með MS frá Norðurlöndunum fimm. Fyrir hönd Íslands komu fram Eva Þorfinnsdóttir og Símon Rafn Björnsson (standa lengst til hægri).

Myndina má sjá hér

 

Mjög vel gerð stuttmynd: MS og daglegt líf

lifmedms

Bræðurnir Daniel Kjartan og Davíð Fjölnir Ármannsynir gerðu stuttmynd fyrir Alþjóðadag MS í maí 2011 sem ber heitið MS og daglegt líf en Daníel Kjartan greindist ungur með MS. 

Myndin tekur um 1 ½ mínútu í sýningu.

Skyggnst er örsnöggt inn í daglegt líf fjögurra einstaklinga með MS og nokkrar staðreyndir um sjúkdóminn settar fram á einfaldan hátt.

Undir myndinni hljómar lagið "Upp og niður stigann" í flutningi hljómsveitarinnar Sálin hans Jóns míns og Stórsveitar Reykjavíkur, sem gáfu góðfúslegt leyfi til notkunar á laginu. Sjá myndina hér og endurgerða 2018 hér.

 

Hér má sjá Daníel með yngri son sinn, Ísak, og Berglindi formann á Alþjóðadegi MS í maí 2011:

 Daníel og Berglind