Svefntruflanir eru ekki dæmigerð MS-einkenni en eru samt algengar og oft ógreint vandamál. Þreyta vegna svefnleysis getur haft veruleg áhrif á getu einstaklingsins í daglegu lífi. Nauðsynlegt er því að greina og meðhöndla slíkar truflanir þar sem það getur bætt lífsgæði verulega. 

 

Svefntruflanir, þar á meðal svefnleysi, kæfisvefn og fótaóeirð, geta aukið á MS-þreytu sem er algengt MS-einkenni og ein af aðal orsökum þess að MS-fólk hverfur snemma af vinnumarkaði. Að meðhöndla svefntruflanir getur haft jákvæð áhrif á önnur MS-einkenni, einkum hugræna færni, þreytu, þunglyndi og verki.

Svefntruflanir geta verið margvíslegar. Það geta verið erfiðleikar með að sofna, erfiðleikar við að viðhalda svefni (vakna um nóttina eða ekki geta sofnað strax) og/eða vakna of snemma.

 

Orsakir svefntruflana:

  • Spasmi og vöðvaspenna
  • Taugaverkir og/eða stoðkerfisverkir
  • Fótaóeirð
  • Kvíði, stress, þunglyndi, áhyggjur
  • Aukaverkanir lyfja
  • Þvaglátsþörf
  • Hrotur og/eða kæfisvefn
  • Mikil þreyta eftir daginn
  • Stuttur svefntími
  • Kyrrseta og lítil virkni
  • Skortur á dagsljósi yfir daginn getur haft áhrif á svefnmynstur
  • MS-skemmdir á því svæði heilans sem hefur með svefn að gera

 

Meðferð og góð ráð:

Fyrir marga dugar að ráða bót á svefnleysi með einföldum aðgerðum og æfingum. Fyrir aðra er ástæða til að hafa samband við heimilislækni.

Hér að neðan má fá góð ráð við svefntruflunum sem Aðalbjörg Albertsdóttir, hjúkrunarfræðingur á tauga- og hæfingasviði Reykjalundar, setti saman 2012 (fengið úr gagnagrunni Up to date, þann 23.5. 2012. Leitarorð var Treatment of insomnia).: 

 

Heilbrigðar svefnvenjur (sleep hygiene) :

  • Sofðu einungis eins mikið og þú þarft til að finnast þú vera hvíldur og farðu svo úr rúminu.  
  • Haltu reglulegu svefnmunstri.  
  • Ekki neyða þig til að fara að sofa.  
  • Þjálfaðu reglulega í minnst 20 mínútur, helst 4-5 tímum fyrir háttatíma.  
  • Forðastu drykki með koffíni eftir hádegi.  
  • Forðastu áfengi fyrir háttinn.  
  • Forðastu reykingar, sérstaklega á kvöldin.  
  • Ekki fara svangur að sofa.  
  • Aðlagaðu umhverfi í svefnherberginu. 
  • Afgreiddu það sem veldur þér áhyggjum fyrir háttatímann. 

 

 Taktu stjórnina (Stimulus control therapy rules): 

  • Farðu einungis í háttinn þegar þú ert þreyttur.  
  • Ekki horfa á sjónvarp, lesa, borða eða hafa áhyggjur í rúminu. Rúmið á einungis að vera til að sofa í og stunda kynlíf.  
  • Farðu framúr rúminu ef þér tekst ekki að sofna innan 20 mínútna og farðu í annað herbergi. Ekki fara aftur í rúmið fyrr en þú ert orðinn þreyttur. Endurtaktu þetta eins oft og á þarf að halda alla nóttina.  
  • Stilltu vekjaraklukku á sama tíma alla morgna, líka um helgar.  
  • Ekki leggja þig að degi til. 

 

Önnur góð ráð:

  • Ef einföld ráð duga ekki er best að hafa samband við heimilslækni því til eru slakandi lyf eða svefnlyf (t.d. Imovane eða "kvöldlyf") sem gætu hjálpað tímabundið.
  • Á vefsíðunni betrisvefn.is er hægt að fá upplýsingar um hugræna atferlismeðferð (HAM) við svefnleysi.   
  • Hér má fá góð ráð og ábendingar um svefn og svefntruflanir á ensku frá National Sleep Foundation. 

 

Fróðleiksmolar:

Rannsókn á yfir 2.300 MS-sjúklingum, sú fjölmennasta hingað til, og sem kynnt var í frétt National MS Society í október 2014, gefur  til kynna að svefntruflanir séu algengar og oft ógreint vandamál hjá MS-fólki. Svefntruflanirnar, þar á meðal svefnleysi, kæfisvefn og fótaóeirð, tengjast þreytu sem er algengt MS-einkenni. Þessi rannsókn sem og niðurstöður annarra svefnrannsókna benda til þess að greining og meðhöndlun svefntruflana geti bætt lífsgæði MS-fólks verulega.  

Um 70% þátttakenda sögðust upplifa að minnsta kosti eina svefntruflun. 38% voru með kæfisvefn, 32% með miðlungs til alvarlegt svefnleysi og 37% fundu fyrir fótaóeirð. Aðeins 4% þátttakenda höfðu fengið greiningu og meðferð á kæfisvefni, 11% vegna svefnleysis og 12% vegna fótaóeirðar. Um 30% þátttakenda upplifðu óeðlilega mikla syfju á daginn og yfir 60% þáttakenda tilkynntu um óeðlilega mikla þreytu sem tengdist svefntruflun. 

 

 

Mynd