Að greinast með MS

Það er aldrei auðvelt að glíma við heilsufarsvandamál og margir verða fyrir áfalli þegar þeir fá greiningu á MS. Fyrstu viðbrögð geta verið: „Þetta hljóta að vera mistök“ eða: „Af hverju ég?“ Fyrir marga getur verið léttir að fá loksins nafn á einkenni sem stundum hafa varað í langan tíma.

Margir hafa heyrt um MS-sjúkdóminn og hafa óljósa hugmynd um að hann tengist hjólastól á einhvern hátt. Sú var kannski raunin áður fyrr en með nýjum lyfjum og betri tækni lifa mun fleiri góðu lífi með sjúkdómnum.

Mikilvægt er að þeir sem eru nýgreindir með MS og aðstandendur þeirra geti fræðst um sjúkdóminn. Framtíðin verður bjartari og sáttaferlið auðveldara ef fólk er upplýst um raunverulegt horf sjúkdómsins í dag.

 

MS 

Hvað er MS?

  • MS (multiple sclerosis) er langvinnur bólgusjúkdómur í miðtaugakerfinu (heila og mænu) þar sem ónæmiskerfið ræðst á mýelín, sem er efni sem myndar slíður utan um taugaþræði og ræður hraða og virkni taugaboða. Skilaboð um hreyfingu, tal eða hugsun truflast og ná illa eða ekki fram til viðeigandi líkamshluta og einkenni sjúkdómsins koma fram.
  • Við greiningu á MS er stuðst við skoðun taugalæknis, sjúkrasögu og einkenni, segulómun (MRI), mænuvökvarannsókn, sjónhrifrit og útilokun annarra sjúkdóma.
  • Einkenni MS eru margvísleg og mjög einstaklingsbundin. Þau koma mismikið fram hjá fólki og vara í mislangan tíma.
  • Líkamleg einkenni geta t.d. verið dofi í útlimum, þreyta, sjóntruflanir, breytingar á jafnvægisskyni, minni máttur, skerðing á samhæfðum hreyfingum, erfiðleikar við gang, vöðvaspenna, spasmi og verkir.
  • Hugræn og tilfinningatengd einkenni geta t.d. verið erfiðleikar með minni, tal, einbeitingu eða athygli, breytingar á persónuleika eða breytingar á háttalagi, s.s. þunglyndi, tilfinningasveiflur eða minna frumkvæði.
  • MS er einn algengasti taugasjúkdómur sem leggst á ungt fólk. Á hverju ári greinast að jafnaði um 25 manns með MS á Íslandi, oftast á aldrinum 20-40 ára. Talið er að um 800 manns séu með sjúkdóminn hér á landi (ársbyrjun 2023) og á heimsvísu um 2,8 milljónir.
  • MS er hvorki smitandi né arfgengur og hefur takmörkuð áhrif á lífslíkur.
  • Orsök MS er ennþá óþekkt. Allt að þrefalt fleiri konur en karlar fá sjúkdóminn en ekki er ljóst af hverju.
  • MS er ennþá ólæknandi en miklar framfarir hafa orðið í meðhöndlun sjúkdómsins á síðustu árum. Ný og kröftug lyf eru komin fram sem geta hamið framgang sjúkdómsins hjá meginþorra MS-greindra og hafa stórbætt framtíðarhorfur þeirra.
  • Með nýjum lyfjum og betri tækni lifa margir MS-greindir tiltölulegu óbreyttu lífi áfram eftir greiningu.

 

MS-félagið gefur út fræðslubækling fyrir nýgreinda en fyrir þá sem vilja ítarlegri upplýsingar má benda á annað útgefið efni.