Sjóntaugabólga

Sjóntaugabólga kemur fram vegna bólgu eða taugaskemmda á sjóntaug. Ekki þarf að vera samasemmerki á milli sjóntaugabólgu og MS en það er þó ákveðin fylgni þarna á milli. Hjá um fjórðungi MS-greindra var sjóntaugabólga fyrsta einkennið sem þeir tóku eftir og leituðu í kjölfarið til læknis. Margir fá sjóntaugabólgu einhvern tímann á sjúkdómsferlinu.

 

Sjóntaugabólga getur byrjað sem mis-sár verkur aftan eða við annað augað. Sjónin minnkar þá yfirleitt á nokkrum dögum, mest í miðju sjónsviðsins, og getur jafnvel horfið. Litaskyn minnkar eða hverfur sem og að nema styrkleika birtu. Einnig getur viðkomandi séð óskýrt, svona eins og horft sé í gegnum matt gler. Þokusýn lýsir ástandinu vel, því það er eins og sjónin verði þokukennd og að þokunni létti ekki þó augun séu nudduð eða augnlokum blikkað. Erfitt getur verið að sjá á skjá eða lesa miðju dagblaðs, svo dæmi sé tekið.

Eftir nokkurn tíma, allt frá nokkrum dögum upp í vikur dregur úr einkennum og sjónin fer að verða eðlileg aftur. Sumir fá þó varanleg einkenni með verri sjón og breyttu litaskyni, sérstaklega þeir sem fá endurteknar sjóntaugarbólgur.

Sjóntaugabólga kemur yfirleitt einungis í annað augað í senn.

 

Meðferð og góð ráð:

  • Hafa strax samband við lækni – heilsugæslu, augnlækni, taugalækni
  • Sterameðferð getur flýtt umtalsvert fyrir bata og er oft beitt, sérstaklega þegar sjóntruflun er meira en væg eða verkur til staðar.
  • Dempa ljós
  • Nota sólgleraugu
  • Alls ekki aka bifreið á meðan þetta ástand varir

 

Talaðu um einkenni þín við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að fá sjóntaugabólgu. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.

 

Góð ráð frá MS-fólki:

 

 

Lumir þú á góðum ráðum um hvernig takast megi á við sjóntaugabólgu, endilega deildu þeim með öðrum með því að senda tölvupóst á netfangið msfelag@msfelag.is.

  

Fróðleiksmolar:

 

 

Mynd