Flestir vita hvað álag, streita eða stress er. Smávegis álag gerir engum illt og getur jafnvel orðið til þess að einstaklingur geri eitthvað enn betur. Hins vegar getur álag breyst í stress og orðið að vandamáli ef áskoranir og væntingar verða of miklar eða of langvarandi. Sú staðreynd að MS er bæði ófyrirséður og framsækinn sjúkdómur getur í sjálfu sér framkallað streitu hjá einstaklingnum. Það eru þó ekki bara neikvæðar upplifanir sem geta orðið svo orkukrefjandi að þær kalli fram streitu heldur einnig jákvæðar upplifanir, svo sem gifting, barneignir eða búferlaflutningur.

Margir óttast að streita auki á sjúkdómseinkenni og hafi þar með áhrif á sjúkdómsferlið. Það eru margir einstaklingar með MS sem upplifa þetta enda þekkt að of mikið álag eða stress gerir engum gott. Þetta hefur verið rannskað en niðurstöðum ber ekki saman. Streita virðist nefnilega ekki hafa áhrif á alla. Sumir eru viðkvæmir á ákveðnum tímabilum í lífi sínu en ekki öðrum. Svo eru aðrir sem upplifa streitu sem eitthvað jákvætt en það eru yfirleitt þeir sem hafa góðan félagslegan stuðning og geta auðveldlega tjáð sig við aðra.

Því miður minnkar streitutilfinning ekki með því að „haga sér vel“ eða hugsa jákvætt. Fjölskylda og vinir, þ.e. félagslegt tengslanet, ásamt hagnýtum upplýsingum um sjúkdóminn, geta hins vegar minnkað neikvæð áhrif MS á daglegt líf. Þetta eru til dæmis upplýsingar um einkenni, meðhöndlun og hjálpartæki eða aðferðir til þess að draga úr einkennum og óþægindum. Ef einstaklingurinn sér sjúkdóminn sem nokkur viðráðanleg vandamál sem hægt er að vinna úr frekar en eitt stórt vandamál þá eykst sú þægilega tilfinning að viðkomandi hafi stjórn á eigin lífi. Það eitt og sér minnkar streitu.

Einstaklingar takast á við streitu hver á sinn hátt. Slökunaræfingar eru góðar því þær minnka spennu og geta linað sjúkdómseinkenni en líka er hægt að nýta sér aðstoð sálfræðinga eða taka þátt í sjálfshjálparhópum.

stress