Fyrirhugað er að halda námskeið fyrir börn MS-fólks helgina 12-13. september með eftirfylgni föstudaginn 18. september í Safnaðarheimili Grensáskirkju.

Athugið að hugað verður mjög vel að hreinlæti og sóttvörnum. Nálægðartakmarkanir gilda ekki fyrir börn fædd 2005 og síðar og því er vel mögulegt að halda námskeiðið. 

Námskeiðið er fyrst og fremst fræðandi og skemmtilegt námskeið fyrir börn MS fólks og eru helstu markmiðin þau að veita börnum MS-fólks:

  • tækifæri til að hitta önnur börn í skipulögðu og skemmtilegu umhverfi
  • tækifæri til að ræða við jafnaldra sína á jákvæðan hátt um margt sem tengist því að eiga foreldri með MS
  • innsýn í það hvernig takast má á við þær margbreytilegu aðstæður sem fylgja því að eiga foreldri með MS
  • tækifæri til að læra meira um sjúkdóm foreldri síns

Á námskeiðinu er unnið út frá ofangreindum markmiðum með verkefnum og umræðum, einnig í gegnum skemmtilega leiki. Lögð er áhersla á að hvert og eitt barn fái að njóta sín sem best og tjá sig á þann hátt sem því hentar best.

Þátttaka í námskeiðinu gefur börnunum aukið sjálfstraust og gerir þau betur í stakk búin að takast á við sterkar tilfinningar eins og reiði, vonbrigði og sektarkennd. Börnin fá aukinn skilning á sjúkdómi foreldri síns og þörfum ásamt því að þau kynnast öðrum krökkum í svipuðum aðstæðum. Þátttaka í námskeiðinu getur einnig leitt til betri samskipta innan fjölskyldunnar og meðal vina og börnin verða sáttari með hlutskipti sitt.

Umsagnir þeirra barna sem sótt hafa Systkinasmiðjuna eru á þann veg að Systkinasmiðjan hafi gefið þeim meiri þekkingu á mismunandi fötlun og þau hafi fengið tækifæri á að tala saman og þess vegna lært svo mikið um mismunandi aðstæður sínar, þó að þau eigi margt sameiginlegt. Það sé líka svo gott að koma og tala um hluti við hvort annað, sem þau geti ekki talað um við annað fólk, eins og t.d. vini sína.

Leiðbeinendur eru Vilborg Oddsdóttir og Hanna Björnsdóttir, félagsráðgjafar.

Skráning og nánari upplýsingar á skrifstofu í síma 568 8620, á heimasíðu www.msfelag.is eða með því að senda tölvupóst á msfelag@msfelag.is

- nánari námskeiðslýsing

- heimasíða Systkinasmiðjunnar