„Nú þegar vorlaukarnir eru farnir að gægjast upp úr moldinni og sólin farin að gefa okkur nasaþef af komandi sumri er hefð fyrir því að blað MS félagsins líti dagsins ljós.

Blaðinu ber að fagna alveg sérstaklega vel því á þessu ári eru 40 ár liðin frá útgáfu fyrsta blaðs MS-félags Íslands. Blaðið hefur í gegnum tíðina verið einn af máttarstólpum félagsins, í það hafa verið ritaðar greinar sem gagn er af, viðtöl tekin við fólk sem MS-ið snertir. Þá hefur það verið okkar stoð í hinum ýmsu baráttumálum.

Í gegnum árin hafa margir viðtakendur beðið spenntir eftir nýju blaði og jafnvel stungið því strax undir koddann svo enginn annar lesi á undan. Blaðið er einnig góð fjáröflun fyrir félagið því mörg félög og einstaklingar styðja rækilega við okkur með auglýsingum og styrktarlínum.

Unga fólkinu finnst samt blaðið stundum gamaldags og munum við reyna að poppa upp útgáfu þess eitthvað með nútímalegri rafrænni útgáfu á næsta ári. En þrátt fyrir að vera gamaldags er blaðið að þessu sinni helgað nýgreindu og ungu fólki með MS og við fáum að skyggnast inn í veruleika þeirra í persónulegum viðtölum. Það ber að gefa fólki sem er að fá fréttir af greiningu gaum og hlúa vel að þeim. Það getur nefnilega margt breyst við að fá þessar fréttir – en ekki endilega. Sögurnar sem við fáum að lesa hér í blaðinu gefa okkur innsýn í hve fjölbreyttar áskoranir MS-ið færir okkur.“

Úr pistli Hjördísar Ýrar Skúladóttur, formanns félagsins

 

Eins og formaður minnist á pistli sínum er blaðið að þessu sinni helgað unga fólkinu. Viðtöl við sjö unga einstaklinga birtast í þessu fyrsta tölublaði ársins en fjögur viðtöl til viðbótar bíða birtingar í seinna tölublaði ársins. Viðtölin eiga það sameiginlegt að vekja miklar tilfinningar í brjósti manns og aðdáun á því hvernig viðmælendur tækla lífið eftir greiningu og viðhorfum þeirra til lífsins með þennan ferðafélaga í för.

Þá er í blaðinu kynning á Skell, félagshópi ungra, nýgreindra einstaklinga með MS, ráðgjafarþjónustu félagsins og námskeiðum, auk fastra liða eins og formannspistils, verðlaunakrossgátu o.fl.

María Rúnarsdóttir, félagsráðgjafi MS-félagsins, skrifar grein um virkni í daglegu lífi, en með hækkandi sól finna margir til löngunar til þess að hlúa að heilsunni og auka virkni sína.

Ólafur Árni Sveinsson, taugalæknir á Landspítalanum er í viðtali við MS-blaðið um mikilvægi þess að fá greiningu snemma og horfur þeirra sem greinast í dag.

Sem sagt efnismikið og einkar áhugavert blað sem vert er að lesa spjaldanna á milli.

Við þökkum ritnefnd og blaðamanninum Rögnu Gestsdóttur kærlega fyrir vel unnin störf.

 

MS-blaðið á rafrænu formi

 

Efnisyfirlit:

 • Formannspistill - Hjördís Ýrr Skúladóttir
 • Skellur – Ungt fólk með MS
 • Þykir mjög vænt um fólk sem vill skilja mig – Kara Sól Gunnlaugsdóttir
 • Stundum þarf ég að slaka á en sjúkdómurinn skilgreinir mig ekki – Edda Þórunn Þórarinsdóttir
 • Maður tekur þetta bara á kassann – Einar Örn Sigurðsson
 • Virkari með vorinu – María Rúnarsdóttir
 • Oft talað um að orsök MS sé gáta – Ólafur Árni Sveinsson
 • Daglegt líf með MS – Úr bæklingi félagsins
 • Maður verður að aðlagast og finna lausnir – Rebekka Hrafntinna Níelsdóttir
 • Greiningin og kastið hafa gefið mér nýja sýn á lífið – Sveinn Henrik Kristinsson
 • Styrkir mann klárlega að lenda í svona áfalli og gefur manni meiri staðfestu – Silvá Kjærnested
 • Ekki með nein plön, nema að lifa góðu lífi – Jóhann Hermannsson
 • Verðlaunakrossgáta

 

Gleðilega páska.