„Fær barnið mitt einnig MS?“, hugsa margir foreldrar og hafa áhyggjur. Þessar áhyggjur geta þjakað hugann þegar pör íhuga barneignir, á meðan barnið er í móðurkviði eða eftir því sem barnið eldist. Líkurnar eru hins vegar það litlar að best er að ýta þessum áhyggjum til hliðar og njóta frekar samvistana við barnið.

 

37 ára kona skrifar: 

Maðurinn minn og ég eigum nú von á fyrsta barni okkar og auðvitað hlökkum við mikið til. Maðurinn minn hefur haft MS í 16 ár og er hann nú kominn með síðkomna versnun MS.

Ég hef lesið mér til á netinu um arfgengi MS og veit því að sjúkdómurinn er ekki arfgengur sem slíkur heldur er um samspil margra ólíkra þátta að ræða. Ég vil alls ekki mála skrattann á vegginn en langar þó til að spyrja: Hvað ættum við að hafa í huga með tilliti til verðandi barns? Er hægt að rannsaka barnið strax eftir fæðingu til að kanna hvort sjúkdómurinn sé undirliggjandi? Er foreldrum ráðlagt, þegar annað þeirra er með MS, að vera sérstaklega á verði gagnvart einkennum sjúkdómsins hjá barninu alveg fram á fullorðinsár þess? 

 

Svar:

Áhyggjur þínar eru skiljanlegar en líkurnar á því að barnið fái MS eru hins vegar litlar (u.þ.b. 3%) þrátt fyrir að maðurinn þinn sé með sjúkdóminn. 

Það er einnig alveg ástæðulaust að vera á varðbergi eða fylgjast sérstaklega með barninu á æskuárum þess þar sem líkurnar á því að sjúkdómurinn komi fram á þessum árum eru svo litlar.

Ekki er hægt að segja fyrir um MS fyrr en einkenni frá taugakerfinu koma fram, því ekki er hægt að skima fyrir sjúkdómnum eða framkvæma eitt einstakt próf. Það þýðir heldur ekki að kortleggja erfðaefni þar sem arfgengi sjúkdómsins tengist ekki einu geni heldur eru þekkt yfir 100 ólík gen, sem hvert um sig getur að litlu leyti aukið líkurnar á MS og genasamsetning einstaklinga er mjög ólík.

Besta ráðið er því að leggja allar áhyggjur til hliðar og njóta barnsins þegar þar að kemur.

 

 

Heimild hér

Mynd: Creative Common leyfi

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Frekari fróðleikur: