Dagana 28. ágúst til 7. september sl. fór fram vefkönnun fræðsluteymis MS-félagsins til að kanna aðgengi MS-greindra að taugalæknum og lyfjum, algengi líkams- og hugarræktar, hversu hátt hlutfall notar hjálpartæki, hvaða þjónustu MS-félagsins fólk nýtir sér helst og hvort félagið geti gert betur til að bæta þjónustuna við félagsmenn. Könnunin stiklar aðeins á því helsta en gefur vísbendingar um hvað fróðlegt er að kanna nánar. 153 svör bárust.

Þessi grein er sú þriðja sem greinir frá helstu niðurstöðum. Sú fjórða og síðasta er væntanleg síðar.

 

Stundar þú líkamsþjálfun?

Liðlega fjórðungur, eða 25,5% svarenda iðkuðu ekki líkamsþjálfun á meðan könnunin stóð yfir. Þriðjungur þeirra karlar, tveir þriðju konur.

KönnunÞeir sem svöruðu játandi, gátu merkt við alla möguleika sem gefnir voru, auk þess að bæta við öðrum möguleikum.

Lang flestir voru hjá sjúkraþjálfara og/eða í einstaklings- eða hópþjálfun á líkamsræktarstöð. Einnig iðka margir jóga eða fara í sund.

Þó nokkrir merktu við þrenns eða ferns konar mismunandi æfingar sem þeir stunduðu.

Þess ber að geta að sjúkraþjálfun fellur nú undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands, sjá hér, og því ódýrara fyrir flesta að fara til sjúkraþjálfara en áður var. Styrktarnámskeið fyrir fólk með MS (hópþjálfun), sem Styrkur sjúkraþjálfun sér um, fellur einnig undir greiðsluþátttöku SÍ.

 

Ef já, hversu oft í viku?

KönnunHelmingur þeirra sem iðkuðu einhverjar æfingar gerðu það þrisvar til sex sinnum í viku en 9% æfðu sig daglega. 35% æfðu einu sinni til tvisvar í viku og 6% sjaldnar en vikulega.

 

Stundar þú hugarrækt/heilaleikfimi?

Hér mátti merkja við allt sem átti við.

70% svarenda stundar einhverja hugarrækt eða heilaleikfimi. Rúmlega fimmtungur (21%) þeirra merkti við liðinn Púsl, sudoku, krossgátur og fleira, 15% þeirra merkti við liðinn Tölvuspil og minnisleikir sem örva sérstaklega hugræna færni og 12% þeirra merkti við báða þessa liði.

42% af þeim sem svöruðu játandi merktu við liðina núvitund, reglulega slökun og/eða hugleiðslu og af þeim merktu margir við ýmislegt annað sem eflir hugræna færni og vellíðan.

 

Þess ber að geta að allt það sem reynir á rökræna hugsun, örvar heilann. Dæmi um slíkt eru hvers kyns þrautir (krossgátur, sodoku, minnisleikir, spil og tölvuleikir) og nýjar áskoranir fyrir hugann, svo sem ný verkefni. Félagsleg samskipti eru einnig mjög mikilvæg fyrir hugræna vellíðan sem og öll hreyfing og hollt mataræði.

 

Framhald síðar....

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Frekari fróðleikur:

 

Á msfelag.is er að finna samsafn vefslóða sem efla hugræna og líkamlega færni:

 

Fyrirvari

Framkvæmd könnunarinnar var með þeim hætti að vefslóð með spurningum var dreift á vefsíðu og fésbókarsíðu félagsins, en auk þess á fésbókarsíður sem tengjast ýmsum hópum fólks með MS. Könnunin náði því aðeins til afmarkaðs hóps, eða til þeirra sem nota vefinn og fésbókina.

Hér er því um óvísindalega könnun að ræða en hún gefur þó alltaf ákveðnar vísbendingar, og ekki síst ábendingar til félagsins.