Er hægt að lækna MS-sjúkdóminn? Um þetta er spurt í Panorama þætti breska ríkissjónvarpsins BBC sem frumsýndur var á BBC 18. janúar 2016 og sem sýndur verður í sjónvarpi RÚV á morgun, þriðjudaginn 13. júní. Sjá má þáttinn hér.

Þátturinn (Can You Stop My Multiple Sclerosis?) fjallar um stofnfrumuaðgerðir á breskum einstaklingum með MS og velt er upp þeirri spurningu hvort stofnfrumumeðferð með eigin stofnfrumum sé lækningin við MS. 

Á sínum tíma var frétt um þennan þátt BBC á MS-vefnum hér.

 

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á meðferð með eigin stofnfrumum á undanförnum árum og áratugum. Aðgerðir sem þessar eru enn á rannsóknarstigi hvað varðar einstaklinga með MS og því ekki gerðar nema sem hluti af viðurkenndu rannsóknarverkefni. Boðið er upp á meðferð með eigin stofnfrumum sem meðferðarúrræði við ýmsum blóðsjúkdómum og krabbameinum hér á landi.

 

Sérfræðingarnir í BBC-þættinum

Breska MS-félagið tók viðtal við sérfræðingana tvo sem koma við sögu í þætti BBC og birti viðtalið á vefsíðu sinni, sjá hér. Sérfræðingarnir prof. Basil Sharrack og prof. John Snowden við Royal Hallamshire Hospital taka þátt í MIST-verkefninu sem sagt er frá hér neðar.

Sérfræðingarnir undirstrika að meðferðin sé ekki fyrir alla og því þurfi sérhver sjúklingur að undirgangast nákvæmt mat sérfræðinga um hvort viðkomandi geti haft gagn af meðferð eða ekki. Meðferðin gagnist helst þeim sem hafa haft sjúkdómsgerðina MS með köstum í minna en 10 ár án versnunar sjúkdómseinkenna og eru með mikla sjúkdómsvirkni (mörg erfið köst) á seinustu 12 mánuðum þrátt fyrir meðferð með MS-lyfjum.

 

Meðferðin læknar ekki þegar áorðinn taugaskaða eða fötlun og gagnast ekki þeim sem eru með stöðuga versnun sjúkdómsins. Meðferðin er sjúklingum mjög erfið og alls ekki án áhættu. Því er meðferðin ekki reynd nema þegar lyfjameðferð sýnir ekki árangur og sjúkdómsvirkni er mikil.

Einstaklingum með MS sem hafa hug á að undirgangast stofnfrumumeðferð er eindregið ráðlagt að gera það eingöngu sem hluta af viðurkenndri rannsókn og að höfðu samráði við taugalækni sinn.

 

Breska MS-félagið tók saman sjö mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga vegna þessa þáttar BBC um eigin stofnfrumusöfnun (AHSCT)) (texti aðlagaður):

 

1. Fyrir hvað stendur AHSCT?

AHSCT (autologous haematopoietic stem cell transplantation), stundum nefnt HSCT, stendur fyrir "söfnun eigin blóðmyndandi stofnfrumna", en almennt er talað um "eigin stofnfrumusöfnun".

Haematopoietic vísar til þeirrar tegundar stofnfrumna sem finnast í beinmerg og blóði og eru notaðar við meðferðina. Autologous þýðir "frá sama stað" þar sem stofnfrumurnar sem notaðar eru í meðferðinni eru eigin stofnfrumur sjúklingsins.

 

2. Hvað gerist við eigin stofnfrumusöfnun / AHSCT?

Teknar eru blóðstofnfrumur úr beinmerg sjúklingsins sjálfs. Þegar búið er að safna nægjanlegu magni eru þær kældar niður í nokkra daga á meðan sjúklingur fær mjög sterk frumueyðandi lyf, eins og krabbameinslyf, til að slá beinmerginn út og bæla ofnæmiskerfið. Með því verður ofnæmisvörn einstaklingsins engin.  Eftir nokkra daga er stofnfrumum sjúklingsins dælt í hann aftur, sem byrja strax á því að endurbyggja ónæmiskerfið.

 

3. Hvernig virkar meðferðin?

Meðferð með eigin stofnfrumusöfnun er ætlað að endurstilla ónæmiskerfið þannig að það hætti að ráðast á miðtaugakerfið, eins og gerist í MS.

Meðferðin endurnýjar ekki skemmdar taugar. Stofnfrumur sem notaðar eru í þessari meðferð eru ekki samskonar stofnfrumur og notaðar eru við að búa til líffæri (á rannsóknarstofum).

 

4. Er meðferðin árangursrík?

Meðferðin hefur reynst árangursrík fyrir suma. Besti árangur hingað til hefur verið hjá fólki með mjög mikla sjúkdómsvirkni á meðan einstaklingurinn fær MS-köst. Hins vegar virðist meðferðin ekki vera árangursrík hjá þeim einstaklingum sem eru með MS án kasta þar sem ígræðslan endurnýjar ekki taugafrumur, þ.e. þegar áorðnar taugaskemmdir.

 

5. Hver er áhættan?

Meðferð með eigin stofnfrumusöfnun er áhættumeiri en núverandi MS-lyfjameðferðir. Dánartíðni er 1,3%, sem þýðir að 1-2 einstaklingar af hverjum 100 sem undirgangast meðferðina deyja í eða eftir meðferðina.

 

6. Hver getur framkvæmt meðferð með eigin stofnfrumusöfnun?

Sjúkrahús eða stofnanir verða að hafa Joint Accreditation Committee-ISCT and EBMT (JACIE)-leyfi (ákveðinn gæðastimpill) til að mega framkvæma stofnfrumuaðgerð á einstaklingum með MS eða aðra sjúkdóma. Tilvísun þarf frá heilbrigðisstarfsmanni (hér á landi taugalækni) til að komast að í meðferð með eigin stofnfrumusöfnun.

 

7. Hvað segja rannsóknir?

Fjöldi klínískra rannsókna hafa sýnt fram á að eigin stofnfrumusöfnun getur dregið úr köstum og stöðvað framgang eða dregið úr fötlun hjá þeim einstaklingum sem fá MS í köstum. Í gangi er viðamikil alþjóðleg klínísk rannsókn á eigin stofnfrumusöfnun sem kallast MIST og er unnin af læknum og vísindamönnum í Bandaríkjunum, Brasilíu, Bretlandi og SvíþjóðNiðurstöður eru væntanlegar vonandi innan tveggja ára. Aðgerðirnar sem sýndar eru í þætti BBC eru hluti af þessu MIST-verkefni.

Fleiri rannsóknir eru nauðsynlegar til að meta langtímaáhrif meðferðarinnar. Í janúar 2016 var lengsta eftirfylgni vísindamanna með fólki eftir meðferð að meðaltali 6,6 ár.

 

 

Heimildir hér , hér og hér

Mynd hér

 

Bergþóra Bergsdóttir

 

***** Frekari upplýsingar:

  • Frétt á MS-vefnum frá 19. janúar 2016 um þátt BBC, hér
  • Viðbrögð breska MS-félagsins við þætti BBC, hér
  • Þáttur BBC "Can You Stop My Multiple Sclerosis?", hér, (á vefsíðunni Dailymotion.com (depillinn á stóru svörtu skjámyndinni blikkar á meðan þátturinn er að hlaðast niður - gæti tekið nokkrar mínútur))
  • Um stofnfrumuígræðslu (Blóðbankinn), hér
  • Fróðleiksmoli 1: Hvað er MS?, hér
  • Hvað er stofnfrumumeðferð? (á ensku), hér