Þessa dagana eru landsmönnum 16 ára og eldri að berast boð í örvunarbólusetningu.  Samkvæmt upplýsingum á covid.is er tilgangurinn að efla eins og hægt er varnir gegn COVID-19 smiti og alvarlegum veikindum, en niðurstaða nýbirtrar rannsóknar frá Ísrael sýnir að örvunarbólusetning er um 90% virk til að koma í veg fyrir smit og alvarleg veikindi samanborið við tvær sprautur af Pfizer bóluefninu.

Hérlendis verður bóluefni frá Pfizer/BioNTech almennt notað í örvunarbólusetningar, en einnig er til bóluefni frá Moderna sem má nota í þessum tilgangi hjá vissum hópum. Sem fyrr er bólusetning í höndum heilsugæslunnar og heilsustofnana um land allt. Boð um örvunarbólusetningu berast með sms.

Yfirvöld mæla ekki með almennum örvunarbólusetningum 12-15 ára barna eins og er, þar sem gögn um þær eru ekki fullnægjandi.

Þá er tekið fram að eftirfarandi hópar ættu ekki að þiggja örvunarbólusetningu nema að höfðu samráði við sinn lækni:

  1. Einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma sem eru með virkan sjúkdóm þegar örvunarbólusetning er ráðlögð.
  2. Einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma sem fengu versnun einkenna eða ný, alvarleg einkenni innan 2ja vikna frá COVID-19 grunnbólusetningu.
  3. Einstaklingar sem fengu lífshættulegar aukaverkanir við grunnbólusetningu, s.s. bráðaofnæmi.

 

Við leituðum til taugadeildar Landspítala eftir almennum upplýsingum til MS-fólks varðandi örvunarbólusetningu með tilliti til lyfjagjafa og fengum eftirfarandi svör frá þeim Jónínu Hallsdóttur, Hauki Hjaltasyni og Ólafi Árna Sveinssyni sem við kunnum þeim bestu þakkir fyrir.

Mikilvægt er að hafa í huga að þessi tilmæli geta breyst ef fram koma nýjar upplýsingar og einnig að burtséð frá því hvaða lyfi fólk er á, þarf að hafa í huga að oftast líða 6 mánuðir á milli seinni bólusetningar til örvunarbólusetningar.

Ef fólk er í vafa eða þarf frekari upplýsingar er að sjálfsögðu í boði nú sem fyrr fyrir MS sjúklinga að hafa samband við lækna og hjúkrunarfræðinga á taugadeildinni, sjá nánar hér.

 

Rituximab

Ráðlagður tími bólusetningar fyrir og eftir rituximab lyfjagjöf hefur aðeins lengst, þar sem bólusetningin virkar betur eftir því sem lengri tími liður frá lyfjagjöf, og er nú almennt mælt með að bólusetja eftir 6 mánuðum eftir rituximab lyfjagjöf og að bíða með rituximab lyfjagjöf í 6 vikur eftir bólusetningu. Þetta á bæði við um örvunarbólusetningar sem og bólusetningar almennt í tengslum við þessa lyfjameðferð. 

Taka ber fram að þetta eru almenn tilmæli og í einstökum tilvikum geta læknarnir ráðlagt fólki að fara í örvunarbólusetningu þótt ekki hafi liðið 6 mánuðir frá seinni bólusetningu. Sú ráðlegging byggist aðallega á tímasetningu rituximab lyfjagjafar, þeirrar síðustu sem átti sér stað og þeirrar næstu sem fyrirhuguð er. Til dæmis geta 5 mánuðir frá síðustu lyfjagjöf dugað ef lyfið er gefið á 6 mánaða fresti.  Hjá flestum er þó hægt að lengja tímabilið milli lyfjagjafa eftir 3-4 skipti.

 

Tysabri

Einstaklingar sem eru á Tysabri geta þegið bólusetningu minnst viku fyrir eða eftir lyfjagjöf. 

 

Mavenclad töflumeðferð

Bíða þarf með bólusetningar í 4-6 vikur eftir inntöku Mavenclad.

 

Gilenya og Tecfidera

Einstaklingar sem eru á Gilenya og Tecfidera geta þegið boð um bólusetningu þegar kallið kemur frá Heilsuveru.

 

Hægt er að lesa sér nánar til um bólusetningar á vefsíðunni covid.is, vef Embættis landlæknis o.fl. síðum.

 

Upplýsingar um bólusetningar á covid.is

Tilefni örvunarbólusetninga gegn COVID – Embætti landlæknis

Frétt af MS vefnum 15.01.2021 um bólusetningar

Nýjustu COVID-19 ráðleggingar alþjóðasamtakanna MSIF fyrir fólk með MS (á ensku)