Alþjóðasamtök MS félaga (MSIF) hafa enn á ný uppfært COVID-19 leiðbeiningar sínar fyrir fólk með MS að teknu tilliti til fyrstu vísbendinga úr gagnasöfnunarátaki samtakanna og MS Data Alliance.

Uppfærðar leiðbeiningar er að finna hér en hér verður stiklað á stóru um helstu breytingarnar frá fyrri útgáfu. Sem fyrr er öllum með MS ráðlagt að fylgja almennum leiðbeiningum til að draga úr hættu á sýkingu af COVID-19.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eykur það eitt að vera með MS-sjúkdóminn ekki líkurnar á því að látast úr sjúkdómnum. Samt sem áður geta mögulegar langtímaafleiðingar MS-sjúkdómsins gert fólk móttækilegra fyrir því að fá alvarlegra tilfelli af COVID-19. Í ráðleggingunum hafa þeir hópar fólks með MS sem eru í aukinni áhættu verið skilgreindir betur og þeim ráðlagt að fara sérstaklega varlega. Þessir hópar eru:

  • Fólk með síversnun í MS
  • Fólk með MS sem er eldra en 60 ára
  • Fólk með hátt fötlunarstig (t.d. EDSS stig 6 eða hærra)
  • Fólk með undirliggjandi hjarta- eða lungnasjúkdóma

 

Þá eru komnar fram betri vísbendingar um hvaða lyf teljast auka áhættuna á því að fá fylgikvilla vegna COVID-19 sýkingar. Við hvetjum alla til að kynna sér upplýsingarnar um lyfin vel í ráðleggingunum sjálfum en í grófum dráttum má skipta lyfjunum í 2 flokka:

 

  • Lyf sem ólíklegt er að auki áhættu á alvarlegum sjúkdómi:

Avonex, Betaferon, Rebif, Copaxone, Remurel, Tecfidera, Aubagio, Gilenya og Mayzent

 

  • Lyf sem gætu hugsanlega aukið áhættu á alvarlegum sjúkdómi og/eða þarf að rannsaka betur til að meta öryggi þeirra:

Ocrevus, Truxima, MabThera, Blizima, Tysabri, Lemtrada, Mavenclad

 

Þá er komið inn á notkun stera og mælt með því að einungis eigi að nota stera til að meðhöndla alvarleg köst og á meðan á sterameðferð stendur eigi fólk að vera sérstaklega aðgætið.

Þá er fólk með MS hvatt til að vera eins virkt og hægt er, stunda endurhæfingu og nýta sér þau úrræði sem í boði eru, s.s. fjarþjónustu ofl.

 

Veffundur International Progressive MS Alliance (IPMSA)

Alþjóðlega síversnunarbandalagið (IPMSA), sem MS-félagið gerðist nýlega aðili að, stóð fyrir veffundi þann 25. júní um nýjustu þróun í rannsóknum á síversnun í MS og fyrstu vísbendingar úr gagnasöfnunarátaki MSIF og MS Data Alliance um COVID-19 og MS. Hægt er að hlusta á upptöku af fundinum hér. Umfjöllunin um COVID-19 hefst í miðri upptöku eða á 21. mínútu.

 

Gagnasöfnun MS Data Alliance og MSIF

Við viljum minna á gagnasöfnunarátakið um MS og COVID-19, en sett hefur verið upp sérstök gátt þar sem bæði einstaklingar með MS sem hafa fengið COVID-19 og læknar geta miðlað upplýsingum beint.

Einstaklingar geta tekið þátt hér      Læknar geta tekið þátt hér

 

Fréttir frá Íslandi

Eins og er höfum við haft fregnir af því að einn Íslendingur með MS hafi fengið COVID-19. Um er að ræða ungan einstakling með tiltölulega nýlega MS greiningu en töluvert eldri sögu um einkenni eins og oft er raunin. Sjúkdómsgerðin er MS í köstum og er einstaklingurinn ekki á MS lyfjum eins og er. Að svo stöddu hafa einungis væg einkenni COVID-19 sýkingarinnar komið fram.

 

BÓ 

 

Leiðbeiningar fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu

Uppfærð yfirlýsing og ráð frá MSIF á íslensku

Uppfærð yfirlýsing og ráð frá MSIF á ensku

COVID.is

 

Heimasíða MS Data Alliance

Heimasíða MSIF

Heimasíða gagnamiðlunarátaksins

 

Fyrri fréttir:

Frétt 8.5.2020

Frétt 13.3.2020

Frétt 4.3.2020

Frétt 12.2.2020