Undanfarið ár höfðu viðskiptavinir VÍS val um að styrkja góðgerðarfélög við kaup á líf- og sjúkdómatryggingum á netinu. Eitt þúsund krónur runnu til góðgerðarfélags fyrir hverja milljón sem viðskiptavinur valdi í tryggingarfjárhæð. Styrkurinn kom alfarið frá VÍS.

MS-félagið var eitt þriggja góðgerðarfélaga sem hægt var að velja og á þessu rúma ári sem verkefnið stóð yfir söfnuðust 2.593.900 kr. fyrir félagið.

Verkefnið fellur undir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun númer þrjú sem beinir kastljósinu sínu að heilsu og vellíðan og VÍS styður. Sérstök áhersla er lögð á öflugar forvarnir í nánu samstarfi við viðskiptavinina. Þess vegna gátu viðskiptavinir VÍS styrkt þessi góðu málefni þegar þeir keyptu líf- og sjúkdómatryggingar á netinu.

Guðmundur Óskarsson, markaðsstjóri VÍS, var ánægður með móttökurnar hjá viðskiptavinum VÍS. ,,Við erum virkilega stolt og þakklát fyrir hversu vel viðskiptavinir okkar tóku þessu framtaki. Enginn býst við því að missa heilsuna en staðreyndin er sú að allir geta lent í því. Líf- og sjúkdómatryggingar eru því mikilvægar til þess að draga úr fjárhagslegum afleiðingum þess að veikjast alvarlega. Við erum viss um styrkurinn nýtast vel í því mikilvæga starfi sem góðgerðarfélögin sinna ─ og erum stolt af því að geta lagt okkar að mörkum, ekki síst í þegar þrengir að rekstrarumhverfi góðgerðarfélaganna í heimsfaraldrinum. Styrkurinn er því vonandi byr undir báða vængi hjá öllum félögunum.“

Orð Guðmundar eru orð að sönnu, þessi styrkur kemur sannarlega að góðum notum hjá félaginu sem í sínu starfi leggur áherslu á að veita þeim sem haldnir eru MS-sjúkdómnum og aðstandendum þeirra stuðning og stuðla að öflugri félags- og fræðslustarfsemi. Félagið er t.a.m. reglulega með fræðslu um hin ýmsu málefni tengd heilbrigðum lífsstíl og býður ráðgjöf og námskeið fyrir MS-fólk og aðstandendur.