Vikan hér á Sléttuveginum hefur einkennst af miklu annríki. Þessi tími ársins er einn sá annasamasti hjá okkur því eitt helsta fjáröflunarverkefnið okkar er sala á jólakortum og þeim þarf að pakka í söluumbúðir. Fleiri verkefni eru einnig í gangi hjá félaginu, til dæmis útsending borðdagatals fyrir árið 2020 til styrktaraðila.

Við höfum verið svo lánsöm að njóta liðsinnis starfsfólks Íslandsbanka við þessa vinnu og í vikunni komu hér 8 hópar starfsmanna sem rúlluðu þessu upp með frábærri samvinnu og stemmingu. Af hálfu MS-félagsins er það Ingdís skrifstofustjóri sem á veg og vanda af allri skipulagningu verkefnisins og sér til þess að allt gangi snurðulaust fyrir sig.

Stuðningur starfsfólks Íslandsbanka er félaginu ómetanlegur og kunnum við þeim öllum bestu þakkir fyrir. Íslandsbanki starfrækir verkefnið Hjálparhönd. Í því felst að starfsfólk getur varið einum vinnudegi á ári í þágu góðs málefnis og velur sjálft það málefni sem það vill veita liðsinni. Nánari upplýsingar um verkefnið má sjá hér.

 

Takk fyrir okkur – þið eruð æði!