Helgi Seljan, fyrrverandi alþingismaður og heiðursfélagi MS-félags Íslands, er látinn, 85 ára að aldri.

Helgi fæddist 15. janú­ar 1934 á Eskif­irði. Foreldrar hans voru Friðrik Árna­son­ og El­ín­borg­ Krist­ín­ Þor­láks­dótt­ir og fóst­ur­for­eldr­ar hans Jó­hann Björns­son, bóndi í Selja­teigi í Reyðarf­irði, og kona hans Jó­hanna Helga Bene­dikts­dótt­ir.

Helgi var menntaður kennari og starfaði sem kennari og síðar skólastjóri fram til ársins 1971, þegar hann var kjörinn til setu á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið í Austurlandskjördæmi. Hann var for­seti efri deild­ar Alþing­is 1979-1983 og sat á  þingi til árs­ins 1987, en þá gaf hann ekki kost á sér til end­ur­kjörs. Að þingferlinum loknum varð hann Helgi fé­lags­mála­full­trúi hjá Öryrkja­banda­lagi Íslands og seinna fram­kvæmda­stjóri bandalagsins allt til starfs­loka árið 2001.

Helgi hóf ung­ur af­skipti af fé­lags­mál­um. Hann sat í stjórnum og var formaður ýmissa félaga. Þá beitti hann sér mjög í mál­efn­um ör­yrkja og fatlaðs fólks og skrifaði fjölda greina og pistla í blöð og tíma­rit, bæði laust og bundið mál.

Fyrstu kynnum Helga Seljan af MS-félaginu lýsir hann sjálfur í grein sem hann ritaði í tilefni af 40 ára afmæli félagsins:

Fyrstu kynni mín af MS-félaginu voru þau, að sá ágæti læknir Sverrir Bergmann fékk mig á minnisstæðan fund hjá félag­inu, en þar var þrátt fyrir eðlilegan og raun­sæjan alvöru­tón ákveðin bjartsýni og baráttuandi ríkjandi. Um þennan sjúkdóm vissi ég þá sáralítið, en æskuvinkonan hún Haddý mín, Erna Hafdís Berg, hafði fengið þennan óvægna gest í heim­sókn á fertugsaldrinum, sagði mér nokkuð frá honum, aðstæðum sínum öllum og líðan sem og framtíðar­horfum, en gestinum grimma dvald­ist hjá henni þar til yfir lauk svo alltof fljótt.

Helgi Seljan var sérstakur velunnari félagsins ásamt því að sitja í laganefnd félagins um margra ára skeið. Um hann má segja að hann var einstaklega bóngóður og gott að leita til um stuðning og ráðgjöf í hinum ýmsu málum. Hann var gerður að heiðursfélaga á afmælishátíð félagsins 27. september 2008.

Eft­ir­lif­andi konu Helga, Jó­hönnu Þórodds­dótt­ur og börnum þeirra sendum við innilegar samúðarkveðjur og þökkum Helga innilega áratuga samvinnu, hjálpsemi og hlýhug í garð félagsins.

Fyrir hönd MS-félags Íslands,
Berglind Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri 

 

 

AFMÆLISKVEÐJA HELGA SELJAN TIL MS-FÉLAGS ÍSLANDS Á 40 ÁRA AFMÆLI FÉLAGSINS Í SEPTEMBER 2008

Þið horfið nú til baka á heillaríkri göngu
og haldið fram á veginn með bjartsýni í för
Á vegferð þeirri oftlega staðið mjög í ströngu
í stríði við þann ógnvald er skerðir margra kjör.
En ykkur er það gefið að starfa bæði og stríða
og stefna fram á veginn og æðrast ekki hót,
það hafa unnist sigrar og hetjulund er víða
og horsk er ykkar liðssveit er gengur sólu mót.

Með aðdáun ég hefi með ykkur fylgst svo lengi
og undrast það um leið hverju samtök megnað fá.
Á lífshörpunni ykkar þið eigið marga strengi
og ofar hverju meini er viljans sterka þrá.
Þið eigið metnað ríkan svo dáðum prýdd að duga
og degi hverjum mætið þið vonardjörf og keik.
Þið virkið allt það bezta með vorsins djarfa huga
og vissa mín er sú að þið eigið næsta leik.