LOKSINS sýna rannsóknir fram á virkni lyfs sem lofar góðu fyrir versnun í MS, þ.e. þá tegund MS sem ekki kemur í köstum. Engin meðferð hefur verið tiltæk hingað til fyrir fólk með frumkomna eða síðkomna versnun í MS. Í fréttatilkynningu frá Genentech, sem er aðili að Roche Group, var tilkynnt að ocrelizumab dró úr framgangi fötlunar samanborið við lyfleysu í fasa III-rannsókn á 732 manns með frumkomna versnun MS (primary progressive MS).

 

Á ECTRIMS –ráðstefnu (Evrópunefnd um meðferð og rannsóknir í MS), sem haldin var í Barcelona í fyrri viku, var kynnt að í samanburði við lyfleysu dró ocrelizumab úr hættu á framgangi klínískrar örorku viðvarandi í að minnsta kosti 12 vikur um 24% og á 120 vikum dró úr þeim tíma sem þarf til að ganga 25 fet um 29%, umfang skemmda (MS-ör) í heila minnkaði um 3,4% og það dró úr heilarýrnun um 17,5%.

 

Rannsókn á virkni lyfsins var einnig framkvæmd fyrir kastaform MS og lofuðu niðurstöður góðu - í línu með Gileyna og Tysbri. Aukaverkanir ocrelizumab þykja enn sem komið er ásættanlegar en aukaverkanir lyfs geta komið fram í mörg ár eftir að það er tekið í notkun.

Lyfið mun verða gefið í æð á sjúkrahúsi tvisvar á ári.

 

Roche Group mun sækja um markaðsleyfi fyrir lyfið fyrir MS-sjúklinga með frumkomna versnun MS og MS í köstum á fyrri hluta 2016 og verði það veitt, má búast við að lyfið verði aðgengilegt fyrir þessa sjúklingahópa frá árinu 2017.

 

Óvíst er hvort lyfið muni verða notað af MS-sjúklingum með síðkomna versnun MS þar sem ekki voru gerðar rannsóknir á þeim sjúklingahópi.

 

Ocrelizumab er einstofna mótefni sem á að bindast sértækt við og hindra virkni CD20 jákvæðra B-frumna, sem er frumutegund sem talið er að gegni lykilhlutverki í skemmdum á myelinslíðrum, sem er verndandi fitulag sem umlykur taugasíma (taugaþræði) og ræður hraða og virkni taugaboða, og taugaþráða.

 

 

Sjá fréttatilkynningu Genentech hér

Sjá fréttatilkynningu MSIF hér

 

 

Sjá hér umfjallanir dönsku og norsku MS-samtakanna.

 

Mynd: Ill. Shutterstock

 

 

Bergþóra Bergsdóttir