Mayzent (siponimod) er fyrsta lyfið sem gagnast MS-greindum með síðkomna versnun MS(1). Lyfið fékk markaðsleyfi í Bandaríkjunum í mars sl. og er nú í leyfisferli fyrir Evrópu hjá evrópsku lyfjastofnuninni, EMA.

Á ECTRIMS 2019(2) voru kynntar niðurstöður nýrra rannsókna sem sýna fram á frekari gagnsemi Mayzent (siponimod), umfram það sem áður hefur verið sýnt fram á.

Þessar nýju niðurstöður gefa til kynna að Mayzent getur seinkað því um 4,3 ár að MS-greindir með síðkomna versnun þurfi á hjólastól að halda, komi til þess á annað borð. Gögn fyrri rannsókna (EXPAND(3)) sýna fram á að Mayzent seinkar bæði framvindu fötlunar og vitsmunalegri skerðingu hjá þeim sem taka lyfið.

 

Mayzent

Virkni Mayzent (siponimod) er svipuð og Gilenya (fingolimod). Siponimod hindrar för bólgufrumna (B- og T-frumna) úr eitlum í blóðrás og þaðan inn í miðtaugakerfið svo þær valdi ekki skaða á mýelíni.

Tekin er 1 tafla á dag.

Aukaverkanir, sem komu oftar fram hjá þeim þátttakendum sem fengu siponimod heldur en hjá þeim sem fengu lyfleysu í EXPAND-rannsókninni, voru: Fækkun hvítra blóðkorna, aukið gildi lifrarensíma, hægari hjartsláttur við upphaf meðferðar, bólgur aftan við auga sem hefur áhrif á sjón (macular oedema), hár blóðþrýstingur, ristill og krampar.

 

Markmið rannsóknarinnar

Markmið rannsóknarinnar, sem kynnt var á ECTRIMS, var að kanna með útreikningum byggðum á gögnum EXPAND hvort notkun Mayzent gæti dregið úr fötlun, mælt á EDSS-fötlunarskalanum (4).

Meginmarkmiðið var að kanna hvort notkun á Mayzent gæti hægt það mikið á framgangi fötlunar að MS-greindir með síðkomna versnun þyrftu ekki á hjólastól að halda að staðaldri, þ.e. næðu aldrei 7 stigum eða hærra á EDSS.

 

Þýðið

Rannsakendurnir settu saman reiknilíkön fyrir tvo viðmiðunarhópa til að reikna út tímann sem það tæki þátttakendur að ná 7 stigum eða hærra á EDSS.

Hópur 1 var í mikilli áhættu á að ná 7. stiginu, þar sem einstaklingar innan þessa hóps höfðu verið mældir með 6,5 EDSS-stig þegar við upphaf þátttöku sinnar í EXPAND. 293 þeirra höfðu fengið Mayzent en 119 fengið lyfleysu.

Hópur 2 innihélt alla þátttakendur EXPAND. 1.099 þeirra höfðu fengið Mayzent en 546 fengið lyfleysu. Fötlunarstig hópsins lá á bilinu 3,0-6,5 EDSS-stig.

 

Niðurstaða

Lokaniðurstöður voru þær að Mayzent getur seinkað því um 4,3 ár að MS-greindir með síðkomna versnun þurfi á hjólastól að halda, komi til þess á annað borð. Miðgildi tíma var 16,3 ár hjá þeim sem fengu meðferð með Mayzent samanborið við 12 ár hjá þeim sem fengu lyfleysu.

Fyrir hóp 1 sýndu útreikningar að 19,2% þeirra sem tóku Mayzent versnaði einkenni og þurftu á hjólastól að halda í kjölfarið á móti 26,1% í lyfleysuhópnum. Þetta þýðir að fyrir þennan hóp, sem þegar stríðir við mikla fötlun, minnkar meðferð með Mayzent áhættuna um 37,3%.

Í hópi 2 minnkaði meðferð með Mayzent áhættuna um 31% á því að mælast með 7 EDSS-stig eða hærra. Hins vegar er þessi niðurstaða ekki almennilega marktæk vegna samsetningar hópsins, samkvæmt taugalækninum sem kynnti rannsóknina á ECTRIMS. Eins og áður segir lá fötlunarstig hópsins á bilinu 3,0-6,5 EDSS-stig. Miðað við þann tíma sem EXPAND stóð yfir (3 ár) og útreikningar miðuðust við, má þannig telja hæpið að margir þátttakendanna næðu nokkru sinni 7 EDSS-stigum eða hærra.

 

Hvað er framundan?

Markaðsleyfi evrópsku lyfjastofnunarinnar er væntanlegt fyrir árslok 2019 og ef vel gengur, komið í notkun hér á landi fyrri hluta árs 2020(5).

Vænlegir tímar eru því framundan fyrir hóp MS-greindra sem allt of lengi hefur verið án úrræða. Fyrir utan Mayzent, sem er í leyfisferli, eru þrjú lyf nú í fasa-3 rannsóknum og fimm lyf í fasa-2(6). Það er því aldrei að vita nema að innan fárra ára verði úr fleiri en einu lyfi að velja fyrir MS-greinda með síðkomna versnun.

 

Færri munu ganga í gegnum síðkomna versnun

Rannsóknir hafa sýnt fram á(7) að MS-lyf sem fólki með MS í köstum(8) eru gefin strax eða fljótlega eftir greiningu, hindra eða tefja fyrir því að sjúkdómsgangur þeirra þróist yfir í síðkomna versnun. Slíkt er að sjálfsögðu einkar jákvætt en um 12 lyf eru nú í notkun á Íslandi fyrir einstaklinga með MS í köstum.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Heimildir hér, hér og hér

Mynd hér

 

*********

Frekari heimildir og fróðleikur:

 

(1) Síðkomin versnun MS

Síðkomin versnun MS byrjar með sjúkdómsgerðinni MS í köstum en breytist síðan yfir í óreglulega framrás með versnun einkenna þar sem stöku kast og minniháttar bati getur átt sér stað. Síðan versnar einstaklingnum smám saman án greinilegra kasta. Það yfirgangstímabil tekur mislangan tíma. Hjá sumum versnar sjúkdómurinn með hægum stíganda á meðan öðrum versnar hraðar.

Hægt hefur verið að meðhöndla einstaklinginn með MS-lyfjum á meðan hann fær köst en hingað til hafa engin lyf hafa virkað á sjúkdóminn þegar köst eru ekki til staðar.  

Áður en kröftug lyf við MS í köstum voru almennt notuð var talið að um helmingur þeirra sem fengu MS í köstum þróuðu síðar með sér síðkomna versnun.

 

(2)  ECTRIMS

ECTRIMS (European Committee for Treatment and Research in Multiple Sclerosis) er stærsta alþjóðlega ráðstefnan sem helguð er grunn- og klínískum rannsóknum á MS. Fundurinn í ár fór fram í Stokkhólmi dagana 11. - 13. september.

 

(3) EXPAND-rannsóknin

Í EXPAND 3ja-fasa rannsókninni tók 1.651 einstaklingur með síðkomna versnun MS þátt frá 31 landi. Að meðaltali höfðu þátttakendur greinst með MS í um það bil 17 ár og höfðu verið með stöðuga versnun í um það bil 4 ár. Rétt rúmur helmingur þátttakenda þurfti aðstoð hjálpartækja til gangs. Þátttakendur tóku annað hvort siponimod 2 mg (1.105) eða lyfleysu (546) daglega í allt að 3 ár.

Opin framhaldsrannsókn stendur í allt að 10 ár til að fylgjast með árangri og áhættu af notkun.

Sjá frétt á MS-vefnum með helstu niðurstöðum hér

Sjá rannsóknarniðurstöður hér

 

(4) EDSS-fötlunarskalinn

EDSS-fötlunarmælikvarðinn (the Expanded Disability Status Scale) er aðferð til að meta hve mikla fötlun einstaklingur hefur af sjúkdómi sínum og meta breytingar á ástandi yfir tímabil. Mælikvarðinn er mikið notaður í klínískum rannsóknum.

Sjá má hvernig EDSS-kvarðinn skiptist hér.

 

(5) Að koma lyfi í notkun á Íslandi

Áður en lyf er tekið í notkun hér á landi þarf að liggja fyrir markaðsleyfi EMA, lyfjastofnunar Evrópu. Það ferli getur tekið allt að ár eða lengur.

Eftir að markaðsleyfi EMA liggur fyrir hefur Lyfjastofnun allt að 30 daga til að gefa út íslenskt markaðsleyfi.

Síðan tekur við ferli sem getur tekið a.m.k. þrjá til fjóra mánuði til viðbótar að jafnaði:

Lyfjafyrirtækið, sem er með umboð fyrir viðkomandi lyf, þarf að taka ákvörðun um hvort það vilji markaðssetja lyfið á Íslandi.

Til þess að markaðssetja lyf þarf lyfið að uppfylla skilyrði markaðsleyfisins með tilliti til umbúða, m.a. þarf að útbúa notkunarleiðbeiningar á íslensku og sækja um verð og greiðsluþátttöku til Lyfjagreiðslunefndar. Verð þarf að liggja fyrir hjá minnst einu Norðurlandanna til að fá úrskurð Lyfjagreiðslunefndar.

Að öllu þessu loknu er hægt að hefja notkun lyfsins.

 

(6) Mismunandi stig lyfjarannsókna

Þegar talað er um fasa-1 -2 og -3 rannsóknir er verið að lýsa mismunandi stigum vísindarannsókna, frá því að mögulegt lyf uppgötvast og þar til það hefur undisgengist allar nauðsynlegar rannsóknir svo hægt sé að sækja um markaðsleyfi, sjá nánar hér.

 

(7) MS-lyf eru árangursrík

Það eru engin einföld próf til til að ákvarða hvort einhver hafi þróað með sér síðkomna versnun frá því að hafa verið með MS í köstum. Því hefur verið erfitt að meta hvort MS-lyf, sem notuð eru við MS í köstum, dragi úr hættu eða tefji fyrir hugsanlegum framgangi síðkominnar versnunar.

Hins vegar benda rannsóknarniðurstöður sem kynntar voru í byrjun árs (sjá hér og hér) til þess að einstaklingar með MS í köstum sem fá MS-lyf fljótlega eftir greiningu þróa síður með sér síðkomna versnun borið saman við þá sem fá ekki lyf eða þá sem fara ekki strax á lyfjameðferð eftir greiningu.

Lyfjameðferð getur þó ekki alveg komið í veg fyrir mögulega fötlun af völdum sjúkdómsins.

 

(8) MS í köstum

Um 85% MS-sjúklinga upplifa tímabundna versnun með bata í kjölfarið, svo kallað MS í köstum. Flestir greinast með þessa gerð sjúkdómsins. Ný einkenni koma þá fram eða viðvarandi einkenni versna. Eftir köstin verður fullur bati eða að einhver einkenni sitja eftir, sem þó eru þannig að hægt er að segja að líðan og ástand sé nokkuð stöðugt á milli kasta.

Sjúkdómsgerðin er mjög ófyrirséð. Sé sjúkdómsvirkni mikil geta komið nokkur köst á ári en það þekkist líka að mörg ár líði á milli kasta.

Margs konar lyf eru til sem koma í veg fyrir köst, fækka þeim eða stytta tímann sem þau standa yfir, jafnvel að þau haldi sjúkdómnum alveg í skefjum.