Gleðilegan alþjóðadag MS 

Það er vor í lofti og aukin bjartsýni ásamt gleði streymir yfir öllu þessa dagana. Það er ljúft að finna fyrir þessari bjartsýni en ekki síður gott að nýta sér hana sem meðbyr í glímunni við MS. Sjúkdómurinn MS snertir fólk á mismunandi hátt. Það eru ekki bara þeir sem eru með MS sem verða fyrir áhrifum - ekki síður allir aðstandendur. Mikilvægt er fyrir allt þetta fólk að finna tengingu sín á milli, finna samheldni og skilning hjá öðrum. Með slíkum tengslum byggjum við brýr, til að mynda milli þeirra sem MS hefur áhrif á og þeirra sem rannsaka sjúkdóminn, tengjum saman reynsluheim fólks og minnkum líkurnar á einsemd og einveru. Fræðsla um MS er mikilvæg og nauðsynlegt að gera MS sýnilegt því þannig minnkum við fordóma og fáfræði fólks.  

Þema Alþjóða MS dagsins eru tengsl eða tengingar og valdi stjórn MSIF (MS International Federation) þetta þema í febrúar 2019 löngu áður en faraldurinn byrjaði að herja á okkur. Þemað hefur hins vegar vaxið og orðið sterkara og sterkara með tímanum.  Við höfum öll þurft á nánd og tengingu að halda á þessum skrítnu tímum. Tengingarnar hafa bara verið öðruvísi. Öll þurftum við að sinna sóttvörnum, fara  minna meðal fólks og halda okkur meira heimavið en áður. Þá höfum við nýtt okkur samfélagsmiðla og internetið til að tengjast. Einmitt á sama tíma fór alþjóða starf MS félaganna á flug í sinni vitundarvakningu á MS. Allskyns kynningar fóru rafrænt út í loftið, samstarfsverkefni, samsöngvar á netinu, ráðstefnur, fræðsla og frásagnir fólks. Það hefur því verið gaman að fylgja ýmsum MS félögum um heim allan á mismunandi samfélagsmiðlum. Þar hafa allir sem á einhvern hátt finna fyrir MS getað fundið tengingar. Þessu verður gaman að fylgja eftir og eitt er víst að alþjóða samfélagið allt ætlar sér að halda áfram að nýta sér ólíkar rafrænar aðferðir til að koma fræðslu og kynningum á framfæri. 

Framundan er sumarið, bjart að vanda fullt af spennandi ævintýrum og möguleikum. Við sem glímum við MS á einn eða annan hátt ættum að nýta okkur vel sumardagana. Vera sem mest úti í náttúrunni og njóta. Í mínum huga eru ævintýri allskonar og út um allt. Við þurfum bara að gefa okkur tíma, staldra við og taka eftir þeim. Stundum er það lítil fluga sem fer á flug, ánamaðkur sem skríður upp úr moldinni á rigningardegi, ferðalag út og suður eða félagsskapurinn við annað fólk. 

 

Njótum lífsins - það er einstakt.  

 

Hjördís Ýrr Skúladóttir, formaður MS-félags Íslands