Dagana 28. ágúst til 7. september fór fram vefkönnun fræðsluteymis MS-félagsins til að kanna aðgengi MS-greindra að taugalæknum og lyfjum, algengi líkams- og hugarræktar, hversu hátt hlutfall notar hjálpartæki, hvaða þjónustu MS-félagsins fólk nýtir sér helst og hvort félagið geti gert betur til að bæta þjónustuna við félagsmenn. Könnunin stiklar aðeins á því helsta en gefur vísbendingar um hvað fróðlegt er að kanna nánar. 153 svör bárust.

 

Þessi grein er önnur þeirra sem greinir frá helstu niðurstöðum. Fleiri eru væntanlegar síðar.

 

Notar þú hjálpartæki?

Yfir helmingur svarenda, eða 55%, svarar spurningunni neitandi og notar ekki hjálpartæki. Það gera hins vegar um 20% svarenda að staðaldri og 25% stundum.

Sé notkun karla á hjálpartækjum borin saman við notkun kvenna kemur ekki á óvart að karlar þurfa frekar á hjálpartækjum að halda en konur.

Könnun um hjálpartækiRannsóknir hafa nefnilega sýnt að MS heggur fastar í karla en konur, þ.e. sjúkdómsgangur karla er hraðari en kvenna, þó MS hrjái frekar konur en karla (allt að þrjár konur á móti hverjum karli).

Í könnunninni kemur fram að  26% karla nota hjálpartæki að staðaldri en aðeins 17% kvenna og að 29% karla nota stundum hjálpartæki borið saman við 24% kvenna. 

58% kvenna þurfa ekki á hjálpartækjum að halda samanborið við 45% karla.

Aðeins einn svaranda yngri en 30 ára notar stundum hjálpartæki, aðrir í þessum aldurshópi nota engin. Það er auðvitað mjög jákvætt en hefur sína skýringu. Gera má ráð fyrir að flestir í þesssum aldurshópi séu tiltölulega  nýgreindir og því flestir með sjúkdómsgerðina MS í köstum þar sem lyf koma að sem mestu gagni við að hindra köst og þar af leiðandi fatlandi einkenni sjúkdómsins.

Ekki kemur á óvart að fjöldi þeirra sem nýta sér hjálpartæki að staðaldri eykst með aldri. 

 

Ef já, þá hvaða?

Við þessa spurningu voru gefnir þrír möguleikar og átti að merkja við allt það sem við átti.

71 einstaklingur notar eitt eða fleiri hjálpartæki.

Könnun á hjálpartækjumFlestir, eða 36 svarendur, nota aðeins gönguhjálpartæki, þar af nota 26 þau bara stundum. 11 svarendur nota eingöngu hjólastól, þar af 10 að staðaldri. 12 nota bæði gönguhjálpartæki og hjólastól, þar af 8 að staðaldri.

Af þeim sem aldrei hafa verið á MS-lyfjum nota 47% engin hjálpartæki. 21% nota hjálpartæki að staðaldri og 32% stundum og nota 60% þeirra eingöngu gönguhjálpartæki og 30% eingöngu hjólastól.

Af þeim sem eru á MS-lyfjum nota 59% engin hjálpartæki, 18% nota þau að staðaldri og 23% stundum. Þeir sem taka lyf þurfa síður á gönguhjálpartækjum og/eða hjólastól að halda.

 

Fyrirvari

Framkvæmd könnunarinnar var með þeim hætti að vefslóð með spurningum var dreift á vefsíðu og fésbókarsíðu félagsins, en auk þess á fésbókarsíður sem tengjast ýmsum hópum fólks með MS. Könnunin náði því aðeins til afmarkaðs hóps, eða til þeirra sem nota vefinn og fésbókina.

Hér er því um óvísindalega könnun að ræða en hún gefur þó alltaf ákveðnar vísbendingar, og ekki síst ábendingar til félagsins.

 

 

Framhald síðar....

 

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Frekari fróðleikur: