Í gær var á bresku sjónvarpsstöðinni BBC þáttur sem fjallaði um niðurstöður stofnfrumurannsóknar sem gerð var á Sheffield's Royal Hallamshire sjúkrahúsinu í Sheffield á Englandi og þótti lofa góðu sem meðferð við MS. Var meðal annars rætt við einstaklinga með MS sem höfðu undirgengist meðferðina og fengið nokkurn bata á eftir.

Því miður er það svo að ekki er um „meðferð handan við hornið“ að ræða fyrir okkur MS-fólk því rannsóknin er aðeins hluti af stærra rannsóknarverkefni (MIST) þar sem niðurstöðu er ekki að vænta fyrr en eftir nokkur ár. MIST-verkefnið er unnið af læknum og vísindamönnum í Bandaríkjunum, Brasilíu, Bretlandi og Svíþjóð.

Meðferðin, sem kallast á ensku Autologous Haematopoietic Stem Cell Transplantation (AHSCT eða HSCT) gengur út á það að nota stofnfrumur einstaklingsins til að „endurræsa“ ofnæmiskerfið. Í MS-sjúkdómnum ræðst ónæmiskerfið á myelínið sem er verndandi fitulag sem umlykur taugasíma (taugaþræði) og ræður hraða og virkni taugaboða. Afleiðing ofnæmisviðbragðanna felast í örum eða sárum á myelínið sem með tímanum hefur áhrif á leiðni taugaboða þannig að boð um t.d. hreyfingu, tal eða hugsun truflast og nær illa eða ekki fram til viðeigandi líkamshluta og einkenni sjúkdómsins koma fram.

Stofnfrumumeðferðin felst í því að viðkomandi einstaklingur fær lyfjameðferð sem gerir mögulegt að safna stofnfrumum úr beinmerg sem með skiljun fjarlægir stofnfrumur úr blóði. Þessar frumur eru frystar og síðan gefnar sjúklingi aftur nokkrum dögum síðar eftir að honum hefur verið gefið kröftug ónæmisbælandi meðferð með ýmsum (krabbameins)lyfjameðferðum (kemoterapi) sem eyðileggja algjörlega beinmerginn. Á næstu vikum framleiða stofnfrumurnar nýjan beinmerg sem gefur þar með möguleika á því að ónæmiskerfi einstaklingsins verði eins og það var áður en hann veiktist og einkenni MS hverfi eða minnki.

Meðferðin krefst sjúkrahúsvistar um tíma þar sem sjúklingur verður mjög veikur af krabbameinslyfjunum. Meðferðin er einstaklingum því mjög erfið og er enn talin mjög áhættusöm.

Sænskar rannsóknir þykja benda til þess að meðferðin henti helst tiltölulega nýgreindum einstaklingum sem upplifa mörg og erfið köst en að jákvæð áhrif meðferðarinnar séu því óvissari sem sjúkdómurinn er lengra genginn.

 

Breska MS-félagið tekur ekki afstöðu til niðurstöðu rannsóknar læknanna í Sheffield né til umfjöllunar BBC, eins og sjá má í frétt félagsins hér.

 

Rannsóknir á gagnsemi stofnfrumna sem meðferð við MS hafa staðið yfir í mörg ár. Niðurstöður smærri rannsókna þykja lofa góðu en niðurstöður viðameiri rannsókna skortir svo hægt sé að segja til um langtímaáhrif, áhættu og hvaða sjúkdómsgerðir MS koma til með að henta stofnfrumumeðferð með meiri vissu. Fleiri rannsóknir eru því nauðsynlegar áður en stofnfrumumeðferð verður raunverulegur valkostur við meðferð MS.

 

Einstaklingum með MS sem hafa hug á að undirgangast stofnfrumumeðferð er eindregið ráðlagt að gera það eingöngu sem hluta af viðurkenndri rannsókn og að höfðu samráði við taugalækni sinn.

 

 

Heimildir: hér, hér og hér

 

 

Bergþóra Bergsdóttir