MS-lyfið Tysabri (natalizumab) er eitt áhrifaríkasta lyfið á markaði í dag fyrir fólk sem fær MS í köstum. Lyfinu getur þó fylgt sjaldgæf en alvarleg aukaverkun sem er sýking í heila sem kallast „ágeng fjölhreiðra innlyksuheilabólga“, oftast nefnd PML. Hættan á að fá PML virðist aukast með lengd meðferðartíma hjá fólki sem greinist jákvætt fyrir JC-veiru (John Cunningham veiru), þ.e. hafa mótefni gegn veirunni, og hjá þeim sem hafa áður verið á annarri ofnæmisbælandi meðferð, s.s. krabbameinsmeðferð, sérstaklega þegar sjúklingur hefur notað Tysabri lengur en í 2 ár.

Frá árinu 2012 hefur verið hægt að mæla styrk JC-veiru í blóði til að meta líkur á því að JCV-jákvæður einstaklingur, sem fær Tysabri, geti þróað með sér PML-heilabólgu. Meti læknar það svo að ávinningur af lyfinu vegi ekki upp á móti áhættunni af notkun þess eru reyndar aðrar lyfjameðferðir. Það er þá helst MS-lyfið Gilenya (fingolimod) og í einhverjum tilvikum krabbameinslyfið (og gigtarlyfið) MabThera (rituximab) ef Gilenya gagnast ekki.

 

Sænsk rannsókn á Gilenya og MabThera

Nýlega voru birtar niðurstöður sænskrar rannsóknar sem gerð var á 256 einstaklingum með MS í köstum, sem reyndust jákvæðir fyrir JC-veirunni og þurftu að hætta á Tysabri vegna hættu á PML. Rannsókninni var ætlað að meta virkni og þol þeirra gagnvart Gilenya og MabThera.

Niðurstaða rannsóknarinnar var að MabThera þótti vera virkara og þolast betur en Gilenya. Bæði dró MabThera frekar úr köstum og hafði færri tilkynntar aukaverkanir en Gilenya.

Það er þó ekki sjálfgefið að allir þeir sem þurfa að hætta á Tysabri fari á MabThera. Fullnægjandi rannsóknir hafa ekki verið gerðar á MabThera fyrir MS-sjúklinga og lyfið hefur þar af leiðandi ekki verið markaðssett sem MS-lyf. Niðurstöður þessarar sænsku rannsóknar verða því ekki leiðbeinandi fyrir notkun lyfsins. Svíar eru einu nágrannar okkar sem hafa notað MabThera fyrir MS-sjúklinga í einhverjum mæli.

 

Ocrelizumab

Í febrúar sl. var hér á vefnum fjallað um tilraunalyfið Ocrelizumab, sem er það fyrsta sem sýnt hefur marktækan árangur við frumkominni versnun MS og þykir lofa svo góðu að umsókn um markaðsleyfi í Bandaríkjunum fær væntanlega flýtimeðferð hjá FDA (U.S. Food and Drug Administration (fæðu- og lyfjaeftirlitsstofnun Bandaríkjanna)). Lyfið, sem verður fyrir þessa gerð sjúkdómsins og MS í köstum, verður vonandi komið á Bandaríkjamarkað fyrir árslok 2016 og á Evrópumarkað, og þar af leiðandi til Íslands, í kjölfarið.

Það góða við lyfið Ocrelizumab er að það hefur nær sömu efnafræðilegu uppbyggingu og MabThera og því ljóst að góður valkostur er væntanlegur í lyfjaflóru MS-sjúklinga.

 

 

Um Tysabri hér

Um Gilenya hér

Um PML hér

 

 

Heimild hér, hér, hér og hér

Mynd: Shutterstock

 

Bergþóra Bergsdóttir